143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[16:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að blanda mér stuttlega í umræðu um frumvarp um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, um jöfnunargjald, sem hér hefur farið fram. Ég tel að sjálfsögðu mikilvægt að þessi mál séu rædd og að leitað sé leiða til að jafna sem best búsetuskilyrði í landinu, bæði á þessu sviði og ýmsum öðrum sviðum.

Hér hefur verið haft á orði af ýmsum, m.a. síðustu tveimur ræðumönnum í þessu máli, að aldrei verði hægt að jafna búsetuskilyrði að fullu. Það kann vel að vera rétt en að sjálfsögðu þarf þá að velta fyrir sér hvar það sé gert og á hvaða sviðum, og hvaða sviðum ekki, og hvar menn búa við mismunandi skilyrði. Hvernig vilja menn þá taka á því?

Ég tel ástæðu til þess að það mál sem hér er til umfjöllunar fái ítarlega umfjöllun og vinnu í nefnd. Um leið og ég segi að ég sé sammála því meginmarkmiði að jafna sem mest má búsetuskilyrðin, m.a. að því leyti sem hér er til umræðu, segir mér svo hugur um að til dæmis sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu muni mörg hver og kannski öll hafa ýmsar athugasemdir fram að færa við útfærsluna í þessu frumvarpi.

Það blasir við, og kannski á það heima hér í umræðunni í kjölfar ummæla síðasta hv. ræðumanns um hækkanir á opinberum gjaldskrám, að frumvarpið mun eins og það er útfært þýða gjaldskrárhækkanir eða hækkanir á álögur hjá íbúum, m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu. Það verður fróðlegt að skoða hvaða áhrif það hefur þá á kaupmátt þeirra sem hér búa. Það er hlutur sem þarf að sjálfsögðu að horfa á í samhengi við annað.

Mér finnst mikilvægt að í þeirri vinnu sem nefndin mun inna af hendi verði reynt að greina hvaða verðjöfnun er nú þegar í gangi í raforkukerfinu og hvernig hún kemur út. Meðal annars má benda á að Orkuveita Reykjavíkur rekur háspennukerfi innan höfuðborgarsvæðisins sem er annars staðar á landinu rekið af Landsneti. Kostnaðurinn við það háspennukerfi er borinn af íbúum höfuðborgarsvæðisins, þeim sem eru á svæði Orkuveitunnar, en kostnaðurinn við Landsnetið er hins vegar borinn af öllum raforkunotendum, þar með talið þeim sem bera jafnframt kostnað af háspennukerfi Orkukveitunnar hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það eru hlutir sem mér finnst mikilvægt að við höldum til haga í umræðunni. En eins og ég segi er ég að sjálfsögðu sammála því meginmarkmiði að reyna að jafna búsetuskilyrði, að bæta og jafna kostnað við dreifingu raforku eins og kostur er. Að sjálfsögðu verður að skoða hvað það hefur í för með sér að gera það eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og er tilefni til þess að ræða hvernig að jöfnunaraðgerðum verður staðið, hvort það verður gert með sértækum hætti, ég vil leyfa mér að kalla það, eða hvort það verður gert almennt í gegnum skattkerfið. Við þekkjum að ýmsar leiðir eru farnar. Við þekkjum að í Noregi til dæmis hafa menn farið þá leið að vera með mismunandi skattprósentu eftir því hvar fólk býr í landinu til þess að jafna búsetuskilyrði. Það er ákveðin jöfnunaraðgerð sem fer fram í gegnum hið almenna skattkerfi. Það má að sjálfsögðu velta fyrir sér í þessu efni líka hvort það væri skynsamlegri leið. Ég tel að minnsta kosti mikilvægt að þessi sjónarmið komi inn í umræðuna á vettvangi þeirrar nefndar og þeirra nefnda sem fjalla munu um þetta mál og að leitað verði eftir viðhorfum orkufyrirtækja og sveitarfélaga sem hlut eiga að máli og þeim gefinn kostur á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri gagnvart því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.