143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[16:57]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð sem lögð hefur verið fram á þskj. 60. Forsaga málsins er sú að í febrúar 2012 var á Alþingi samþykkt þingsályktunartillaga þar sem þáverandi iðnaðarráðherra var falið að skipa nefnd til að móta stefnu um lagningu raflína í jörð. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er tilgreint að mikilvægt sé að fyrir liggi stefnumörkun um með hvaða hætti og á hvaða forsendum stefnt skuli að lagningu raflína í jörð og til hvaða þátta skuli sérstaklega taka tillit í þeim efnum. Í samræmi við framangreinda þingsályktunartillögu skipaði ráðherra nefnd um mótun stefnu og lagningu raflína í jörð og hún skilaði lokaskýrslu til ráðherra í febrúar 2013.

Eftir að hafa kynnt mér efni skýrslunnar varð það niðurstaða mín að rétt sé að upplýsa Alþingi um efni hennar og legg ég því skýrsluna fram til almennrar umræðu. Það er skoðun mín að nauðsynlegt sé að stjórnvöld móti á næstu missirum skýra stefnu varðandi lagningu raflína í jörð og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku.

Þar sem hér er um að ræða eina af grundvallarstoðum í orkumálum Íslands er æskilegt að um framtíð þessara mála ríki almenn samstaða. Undanfari þess er að fram fari upplýst og greinargóð umræða, bæði innan Alþingis og í samfélaginu öllu, sem unnt verði að byggja framtíðarstefnu á.

Notkun jarðstrengja hefur almennt farið vaxandi í raforkukerfi nágrannalanda okkar en stefna þeirra landa er mjög ólík hvað þetta varðar. Tæknilega er allnokkur munur á loftlínum og jarðstrengjum og samanburður að mörgu leyti flókið viðfangsefni þar sem ýmis ólík sjónarmið koma við sögu. Samhengisins vegna tel ég mikilvægt að í umræðu okkar um skýrslu nefndarinnar lítum við ekki eingöngu til þess hvenær eigi að leggja raflínur í jörð og hvenær ekki heldur horfum við heildstætt á málið út frá þörfinni á uppbyggingu í flutningskerfinu og hvernig við getum brugðist við þeim vanda sem að okkur steðjar í þeim efnum.

Afhendingaröryggi raforku er ein af undirstöðunum í orkumálum okkar. Flutningskerfi raforku á Íslandi er að stórum hluta komið til ára sinna og á það sérstaklega við kerfið utan suðvesturhorns Íslands. Staðreyndir sýna að á allra næstu árum þarf að styrkja flutningskerfi raforku til að leysa þær flutningstakmarkanir sem eru í kerfinu í dag og til að anna áætluðum vexti í raforkunotkun auk þess að bæta öryggi raforku í landinu. Að sama skapi þarf að huga sérstaklega að jaðarsvæðum, eyjum í raforkukerfinu og bættum tengingum þeirra inn á hið almenna flutningskerfi. Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir Landsnet kemur fram að ef ekki verði farið í frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi muni það á næstu árum leiða af sér ýmsa erfiðleika hjá raforkunotendum og kosta þjóðfélagið 3–10 milljarða kr. á ári eða á bilinu 36–144 milljarða kr. næsta aldarfjórðunginn. Ég tel einsýnt að við slíka þróun verði ekki unað og nú sé kominn tími til að grípa til markvissra aðgerða til að mæta þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að stjórnvöld móti skýra stefnu um framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku. Inn í það koma meðal annars álitamálin um loftlínur eða jarðstrengi, hlutverk og stöðu kerfisáætlunar Landsnets, hlutverk sveitarfélaga og ýmislegt fleira. Sem lið í undirbúningi þeirrar stefnumótunar legg ég því þessa skýrslu hér til umræðu á Alþingi.

Í skýrslunni og fylgiskjölum hennar er að finna margvíslegar gagnlegar upplýsingar sem hægt er að styðjast við í umræðunni og byggja á. Í skýrslu nefndarinnar eru settar fram ákveðnar tillögur er varða breytingar á fyrirkomulagi við undirbúning framkvæmda í raforkuflutningskerfinu. Hvað varðar þær ágætu tillögur get ég upplýst að innan ráðuneytisins er nú unnið að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum sem felur í sér nýtt fyrirkomulag við gerð kerfisáætlunar Landsnets. Er það frumvarp í beinu samræmi við tillögu nefndarinnar og er þar lögð til grundvallarbreyting varðandi vinnuferlið í kringum kerfisáætlunina. Í frumvarpinu er kveðið á um að flutningsfyrirtæki Landsnets skuli árlega leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun til 10 ára um uppbyggingu flutningskerfisins.

Sú krafa er lögð á flutningsfyrirtækið að hafa náið samráð við hagsmunaaðila við gerð kerfisáætlunar. Hlutverk Orkustofnunar samkvæmt frumvarpsdrögunum er að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun Landsnets, hafa eftirlit með framkvæmd hennar og gæta þess að öll fyrirhuguð fjárfestingarverkefni í flutningskerfinu komi þar fram. Sem áður segir er frumvarp þetta enn á vinnslustigi innan ráðuneytisins en með breytingu á raforkulögum í þessa veru fengi kerfisáætlun Landsnets mun traustari lagagrundvöll en nú er auk þess sem gerðar eru ríkar kröfur um undirbúning, samráð og eftirfylgni. Ég tel að almenn samstaða sé meðal þeirra aðila sem málið varðar um að slík lagabreyting sé æskileg og í raun nauðsynleg út frá mikilvægi kerfisáætlunar flutningskerfisins. Vinna við gerð þessa frumvarps er langt komin og geri ég ráð fyrir að geta lagt það fram hér innan skamms.

Ég vil enn fremur nefna að ég tel æskilegt að kerfisáætlun flutningsfyrirtækjanna byggi á valkostagreiningu fyrir einstakar framkvæmdir og hún geti vísað til almennra opinberra viðmiða um hvenær jarðstrengur skuli valinn umfram loftlínu. Skynsamlegt væri að slík viðmið kæmu fram í skjali sem lýsti opinberri stefnu stjórnvalda og hefði hlotið þinglega meðferð. Til að mynda gæti sú stefnumótun komið fram í þingsályktunartillögu um raflínur í jörð og væri þá í kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins á hverjum tíma unnt að vísa til þeirrar þingsályktunartillögu.

Í þessu sambandi er mikilvægt að flutningsfyrirtækið Landsnet fái skýra leiðsögn frá löggjafanum þannig að fyrirtækið geti tekið tillit til annarra sjónarmiða en fjárhagslega hagkvæmasta kostsins þegar það tekur ákvarðanir um framkvæmdir í flutningskerfinu. Með þeim hætti getur ákveðin framkvæmd t.d. verið samblanda af loftlínu og jarðstreng ef það er talið þjóðhagslega hagkvæmt og skynsamlegast út frá margvíslegum ólíkum hagsmunum.

Annað mál sem þarf að skoða í þessu samhengi er hvaða stöðu kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins hefur gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga. Mætti þar sem dæmi hafa til hliðsjónar stöðu rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða en sú áætlun er sem kunnugt er almennt bindandi við gerð skipulagsáætlunar.

Varðandi aðra þætti er mál þessi varða vil ég jafnframt geta þess að það er mín skoðun að óheppilegt sé að ósamræmi sé á milli jarðstrengja og loftlína hvað varðar opinberar álögur eins og vörugjöld. Komið hefur fram að vörugjöld séu lögð á jarðstrengi en ekki loftlínur og tel ég að hluti af stefnumótun ríkisins í þessum málum ætti að felast í því að afnema slíkt ósamræmi þannig að skattalegir þættir hafi ekki áhrif þegar valið er á milli jarðstrengja og loftlína.

Nýlega hafa komið fram nýjar upplýsingar um kostnað og líftíma jarðstrengja og loftlína, samanber skýrslu sem Landvernd kynnti fyrir nokkru, og ljóst er að skiptar skoðanir eru um það eins og ýmislegt annað sem snýr að þessum málum. Tækninni fleygir fram og þróunin hefur verið sú að endingartími jarðstrengja lengist og kostnaður við þá hefur einnig farið lækkandi á undanförnum árum. Því er nauðsynlegt að fylgjast afar vel með þróuninni á þessu sviði. Ég tel mikilvægast að við nálgumst þessa umræðu og þessi mál með opnum huga og hlýðum á öll sjónarmið og tæknilegar upplýsingar og tökum í framhaldi af því upplýsta ákvörðun um næstu skref í þessum mikilvægu málum.

Að lokum vil ég ítreka að það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að stjórnvöld móti á næstu missirum stefnu varðandi lagningu raflína í jörð og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku. Mikilvægt er að Alþingi taki þátt í þeirri stefnumótun og bind ég því vonir mínar við að framlagning þessarar skýrslu nefndarinnar, um raflínur í jörð, geti orðið þáttur í þeirri vinnu og vona ég að hv. atvinnuveganefnd noti tækifærið, kalli til helstu sérfræðinga í þessum málum og ræði þetta mál frá öllum hliðum þannig að við í sameiningu getum myndað hér stefnu til framtíðar í þessum málum og náð um þau sátt vegna þess að mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum er að við þurfum að styrkja flutningskerfið. Það verður að tryggja örugga afhendingu rafmagns um land allt. Til að gera það í sátt verður að hlusta á ólíkar raddir og ólík sjónarmið og það er markmiðið með því að leggja þessa skýrslu fram á Alþingi til umræðu, bæði hér og í nefndinni.