143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að flytja Alþingi þessa stóru og viðamiklu og ítarlegu skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Ég missti því miður af upphafsorðum hæstv. ráðherra.

Þessi skýrsla er afurð nefndar sem var skipuð af þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra 1. mars 2012 um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð og var það gert í samráði við umhverfisráðherra og í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 1. febrúar 2012. Nefndin skilaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra áfangaskýrslu þann 1. október 2012 og í kjölfarið bætti ráðherra við fulltrúum í nefndina til samræmis við tillögu nefndarinnar og, eins og segir, með leyfi forseta:

„Í öðrum áfanga verkefnisins var með fjölgun fulltrúa reynt að draga hin ólíku sjónarmið enn nær vinnuborðinu í því skyni að geta komið fram með stefnuskjal með sem breiðastri skírskotun enda væri það í samræmi við hina þverpólitísku tillögu sem Alþingi samþykkti.“

Eins og ég segi er viðamikil og stór skýrsla lögð hér fram. Ég fagna þessari vinnu. Mér sýnist viðfangsefnið vera mjög faglega sett fram af nefndinni. Sett eru fram ólík sjónarmið aðila sem telja sig málið varða. Þess vegna segi ég að þetta séu alveg fyrirmyndarvinnubrögð. En, virðulegur forseti, þetta er aðeins fyrsta skrefið. Það má eiginlega segja að þetta sé svipað og skýrsla sem var líka rædd hér fyrir jól, um lagningu sæstrengs til Evrópu, til Bretlands. Þá voru fyrstu skref unnin. Sú skýrsla var tekin til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og er þar enn. Atvinnuveganefnd hefur kallað aðila til fundar og mun skila áliti þegar umfjöllun lýkur. Eins verður með þá stóru, miklu skýrslu sem hér er lögð fram. Ég ítreka það sem ég sagði, þetta er aðeins fyrsta skrefið af mörgum. Ég ítreka einnig þakkir mínar til nefndarmanna og þeirra ráðherra sem settu þessa vinnu í gang og hæstv. ráðherra fyrir að koma með málið hingað inn til Alþingis og ræða þessa skýrslu hér. Eins og ég segi mun aðalvinnan fara fram í atvinnuveganefnd þar sem við munum fara í gegnum þessi atriði og skila þá nefndaráliti um málið og hvað skuli gera næst.

Eins og ég sagði hér áðan, virðulegi forseti, hafa allir hagsmunaaðilar sem telja sig málið varða verið í nefndarvinnunni og í upphafi skýrslunnar setja menn fram sín sjónarmið. Það er ansi athyglisvert að fara yfir þau, þótt þau séu sjónarmið hagsmunaaðila. Landvernd fjallar t.d. um þetta. Það er mikið áhugamál hjá Landvernd, eins og alltaf hefur komið fram, að skoða enn betur að leggja rafstrengi í staðinn fyrir raflínur. Ég verð að segja eins og er að þó svo ég hafi ekki verið mjög andvígur ýmissi atvinnuuppbyggingu sem hefur átt sér stað á landinu, t.d. austur á Reyðarfirði er álverið sem þar var byggt sem ég studdi, þá get ég alveg viðurkennt og hef gert það áður að háspennulínurnar eru mjög ljótar og það versta sem maður sér er skógur af möstrum og línum sem liggja þar um. Ég þarf ekki endilega að fara austur til að sjá það, nýjasta dæmið nægir mér, að keyra upp á Hellisheiði og stoppa þar á ákveðnum stað sem ég kann ekki nákvæmlega að segja hvar er en þvílíkur skógur af háspennumöstrum og háspennulínum sem þar liggja er hin mesta sjónmengun. Þetta er það allra ljótasta og allra versta við atvinnuuppbyggingu þegar flytja þarf mikla raforku til.

Þess vegna er það mjög eðlilegt að hagsmunaaðilar … (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Nú tók ég ekki eftir hvaða tíma ég hafði hér í byrjun en …

(Forseti (ValG): Fimm mínútur.)

Ég tók eftir því að við verðum aðeins tveir sem flytjum ræðu þannig að ég geri þá ráð fyrir að annar fulltrúi eigi hér fimm mínútur á eftir, en ég hafði misskilið það og hélt að ég hefði tíu mínútur.