143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni, sem ég hélt að ætti að vera lengri, fór ég yfir það sem kemur fram á fyrstu blaðsíðu þessarar skýrslu, sem eru oft aðalatriðin. Þar eru tekin saman sjónarmið frá hagsmunaaðilunum öllum, m.a. Landvernd, Landsneti, Bændasamtökunum, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins, landeigendum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem auðvitað kom aðeins út af skipulagsmálum, og fleirum.

Það er ansi athyglisvert að fara yfir þau sjónarmið og þess vegna segi ég að mér finnst þessi skýrsla mjög vel unnin, mikið af gögnum er dregið fram, þau sett fram á skilmerkilegan hátt og farið yfir kosti og galla, þar á meðal kostnaðinn. Það má sjá í skýrslunni í margvíslegum glærum sem nefndin hefur tekið saman frá ýmsum þjóðlöndum í kringum okkur hvernig menn nálgast þetta. Það er til dæmis athyglisvert sem kemur fram um kostnaðarhækkanir, sem nokkur þjóðlönd fjalla um. Að vísu verð ég að segja að það kemur fram og hefur komið fram, m.a. í frumvarpi sem við vorum að ræða áðan, að flutningskostnaður er lægri í nokkrum löndum í kringum okkur sem við berum okkur saman við en hér á Íslandi og það er sennilega vegna þess að við þurfum að vera með mikið af línum og bregða þeim víða út af fámenni og öðru.

Hér má sjá að í Frakklandi, þótt gögnin séu frá 1999, hefur verið reiknað út hvað kostar að leggja nýjar 220 kílóvolta línur og þær sem þyrfti að endurnýja í jörð. Fram kemur að það mundi hækka flutningskostnað um 10% og þar með raforkuverð til neytenda um 1% í því landi. Í Bretlandi og Ítalíu var sambærilegt mat um að 25% af háspennulínum í jörð mundi hækka raforkuverð um 3–5% og allar háspennulínur á Ítalíu mundu hækka verð á raforku um 16%. Síðan er fjallað um kerfið hjá okkur á Íslandi. Það sem er öðruvísi hér en í mörgum öðrum löndum er að við seljum í kringum 80% af okkar orku til stórnotenda, sem auðvitað breytir þessu mjög mikið.

Virðulegi forseti. Tíminn er naumur og eins og ég sagði áðan mun meginvinnan okkar núna í framhaldinu með þessa góðu skýrslu fara fram í atvinnuveganefnd þar sem farið verður í gegnum skýrsluna og mun atvinnuveganefnd skila áliti hvað hana varðar. Þetta eru aðeins fyrstu skrefin að mínu mati en góð skref, ég tek það fram.

Á þeim tveimur mínútum sem ég á eftir ætla ég að taka nokkur dæmi um umræðuna sem er í gangi og tek undir það sem hér hefur komið fram. Það er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að hraða þessari vinnu vegna þess, eins og kemur fram í umsögn frá Landsneti, að það er farið að há fyrirtækinu að við skulum ekki vera komin með frekari stefnumörkun hvað þetta varðar. Sú stefnumörkun getur meðal annars verið í því sem kom fram, og það var þannig að það kom fram í kjördæmavikunni hjá okkur í Norðausturkjördæmi á fundi með einu sveitarfélagi, að auðvitað er ákaflega sérstakt að ríkissjóður skuli leggja 15% vörugjald á jarðstrengi sem ekki er lagt á loftlínur. Því fagna ég mjög því sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan. Ég man ekki nákvæmlega hvaða orð voru notuð, það skiptir ekki máli, en aðalsjónarmiðið sem kom fram hjá ráðherra var að þetta beri að jafna, það ber að taka vörugjöldin af jarðstrengjunum til að jarðstrengir og loftlínur verði flutt inn á sömu forsendum til landsins. Það er óþolandi að jarðstrengir skulu bera vörugjöld og það væri ákaflega merkilegt að fá upplýsingar um hvað ríkissjóður hefur fengið í vörugjöld af jarðstrengjum undanfarin ár.

Virðulegi forseti. Á þessum stutta tíma tek ég aðeins sem dæmi lagningu Suðvesturlínu, burt séð frá því hvort reist verður álver í Helguvík eða hvað, hana þarf að styrkja með tilliti til almennra notenda þar. Þar hefur verið fjallað um og sett krafa um að jarðstrengur verði lagður í sveitarfélaginu Vogum og að jarðstrengur verði lagður í gegnum Reykjanesbæ út af væntanlegu álveri, ef það verður byggt. Þar er það sett þannig fram. Þetta er liður í því sem vantar að gera þannig að taka megi ákvarðanir hjá þeim sem eiga að leggja þetta, þ.e. Landsneti, með Suðvesturlínu, hver kostnaðurinn verður á loftlínu á móti jarðlínu hvað þetta varðar. Sama má segja um hugmyndir um lagningu strengs við flugvallarsvæðið á Akureyri þar sem auðvitað liggur beint við að strengur verður að vera í jörðu en ekki í lofti.