143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:55]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka kærlega fyrir umræðuna sem hefur farið hér fram. Hún hefur verið mjög málefnaleg og í línu við það sem ég vonaðist eftir þegar ég ákvað að leggja þessa skýrslu fyrir þingið. Þetta er eins og hér hefur komið fram stórmál. Ég tel að það sé mikilvægt vegna þess að það eru svo gríðarlega mikilvæg mál undir. Við þurfum að styrkja raforkukerfið á næstu árum, það liggur fyrir, en við gerum það ekki nema um það náist sátt í samfélaginu hvernig við gerum það.

Landsnet kallar eftir leiðsögn frá löggjafanum, stefnumótun af hálfu stjórnvalda. Það er sá leiðangur sem við erum farin í hér. Það er algerlega ljóst að Landsnet þarf að taka mið af öðrum sjónarmiðum núna en bara þeim fjárhagslegu þegar ákvarðanir um stórar raflínur eru teknar.

Það er rétt sem fram kom, m.a. hjá hv. þingmönnum Þorsteini Sæmundssyni og Páli Pálssyni, að þetta er sannarlega umhverfismál og það þarf að meta út frá öllum hliðum. Það er eins og bent var á gríðarlega mikið rask fólgið í því að fara með margra metra jarðstreng í gegnum hraun. Það er algjörlega óafturkræft en línur eru aftur á móti þannig að hægt er að taka þær niður og sjónmengunin er þar með farin. Einnig verður að taka tillit til örrar tækniþróunar. Stórir háspennujarðstrengir eru núna gífurlega umfangsmiklir. Í framtíðinni trúi ég og treysti að þessir strengir verði þannig úr garði gerðir að þeir þurfi ekki eins mikið pláss. Allt eru þetta sjónarmið sem við þurfum að taka með í þessa umræðu.

Ýmsir þingmenn hafa sagt: Þetta er fyrsta skrefið. Já. Aðrir þingmenn hafa sagt: Við þurfum samt að hraða okkur. Já, það er líka rétt. Ég tek undir það með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að beina því til hv. atvinnuveganefndar að kalla eftir áliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar í þessum efnum og jafnvel líka hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þarna eru líka fjárhagslegu áhrif á ferðinni og einkum og sér í lagi hvað varðar vörugjöldin að skoða þær hliðar málsins.

Ég tek líka undir það sjónarmið að hafa landverndarskýrsluna til hliðsjónar. Hún er nýrri, með nýrri upplýsingar um ýmislegt hvað varðar samanburðinn.

Allt eru þetta góð gögn inn í þessa umræðu og ég vonast svo sannarlega til þess að að lokinni yfirferð skili nefndin frá sér áliti sem verður að gagni fyrir framtíðarstefnumótun um þessi mál. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna.