143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.

29. mál
[18:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir störf hennar í þessu máli. Það er ánægjuefni að sjá að nefndin leggur hér til að þessi tillaga verði samþykkt með einni breytingu sem lýtur að tímafresti. Ég vil því þakka hv. nefnd fyrir starfið og lýsa ánægju minni með að hún hafi komist að þessari niðurstöðu.

Við höfum gjarnan verið nokkuð stolt hér á Íslandi af okkar stöðu í málefnum hinsegin fólks og vissulega hefur mjög margt gott verið gert. Það sem hefur líka verið svo mikilvægt er að á Alþingi hefur iðulega náðst mjög góð samstaða um þær réttarbreytingar og þær breytingar sem hafa verið gerðar á málefnum hinsegin fólks. En ástæða þess að ég lagði þessa tillögu fram sl. sumar var kynning á svokölluðu regnbogakorti sem sýndi lagalegan stuðning hinsegin fólks í ólíkum Evrópulöndum og það kom að minnsta kosti mér nokkuð á óvart að sjá að Ísland var þar í 10. sæti af 49 ríkjum sem voru athuguð. Við vorum þar á svipuðum stað og Danmörk en nokkru neðar en Noregur og Svíþjóð. Á þessu korti hlaut Stóra-Bretland flest stig.

Svona kannanir minna mann á að þó að margt gott hafi verið gert þá skiptir máli að vera sífellt vakandi gagnvart löggjöfinni og gagnvart því hvernig við getum búið sem best um hnútana til að tryggja öllum jafnan rétt. Þar hafa Samtökin 78 auðvitað bent á margt og það kemur fram í áliti hv. nefndar að til að mynda er nauðsynlegt að meta reynsluna af hinum nýju lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. En það er líka margt sem má betur gera, til að mynda þegar kemur að fræðslu. Þá er ég ekki aðeins að tala um fræðslu gagnvart almenningi eða fræðslu í skólum heldur líka fræðslu fyrir aðstandendur hinsegin fólks. Ég nefni líka varnir gegn hatursorðræðu sem eru ófullkomnar í íslenskri löggjöf og ýmis einföld atriði sem lúta hreinlega að eyðublöðum og skráningarformum og öðru slíku sem manni finnst í raun og veru að ætti að vera sjálfsagt að lagfæra en þarf kannski hvatningu til að lagfæra.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég fagna því að það er tillaga hv. nefndar að afgreiða þetta mál og ég vonast svo sannarlega til þess að hæstv. ráðherra skipi nefnd og sjái til þess að hún starfi hratt og örugglega. Það er ávallt mikilvægt í mannréttindamálum að vera á verði og vera á vaktinni. Þar er ekkert sjálfgefið og skiptir miklu máli að við setjum okkur þá stefnu að vera í fremstu röð í þessum málaflokki ekki síst af því að við getum það, af því að við vitum að við höfum iðulega náð góðri samstöðu um þessi mál, af því að við vitum að hér hafa margir góðir hlutir verið gerðir. Þarna eigum við tvímælalaust sóknarfæri til að ná samstöðu um að koma okkur í fremstu röð.