143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar.

89. mál
[18:38]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir að bera þetta mál hér fram. Þetta er mikilvægt mál og viðkvæmt og mál sem við þurfum að taka fastari tökum en okkur hefur tekist undanfarið. Það er vaxandi vandamál á sviði geðheilbrigðis.

Nefndin tók málið fyrir og ég vil þakka gott samstarf í nefndinni þegar það var tekið fyrir. Til nefndarinnar komu margir umsagnaraðilar. Þeir voru einróma samþykkir því að nauðsynlegt sé að mótuð sé skýr stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Ég vil taka undir það en jafnframt halda því á lofti hér að það hefur náttúrlega verið unnin gríðarleg vinna í gegnum tíðina, mörg undanfarin ár. Það er ýmislegt til af gögnum sem má tína til og nota í þessa vinnu og ég vona að okkur farnist vel í því því að mjög nauðsynlegt er að fara að taka á þessum málum, eins og ég sagði áðan.

Geðheilbrigðismálin hafa verið hálfgert olnbogabarn í íslensku heilbrigðiskerfi lengi. Þetta eru mál sem við getum ýtt frá okkur en í öllum fjölskyldum á landinu þekkjum við til þeirra mála. Ég vona að við berum gæfu til að stíga farsæl skref í framtíðinni í þessu og tek undir orð formanns sem talaði um mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu við börn og að þau fái sérstaka skoðun í framtíðinni því að þar er mikið verk óunnið. Ég vona að málið vinnist vel áfram og þakka gott samstarf í nefndinni.