143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu.

107. mál
[18:58]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Mikilvægt er að mínu mati að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, og þar með Austur-Húnavatnssýslu, um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á svæðinu, m.a. með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun.

Eins og segir í tillögu til þingsályktunar er markmiðið með átakinu að efla samkeppnishæfi svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Það er staðreynd, eins og fram kemur í tillögunni sem hér um ræðir, að miklar breytingar hafa orðið á atvinnuháttum á Norðurlandi vestra á undanförnum árum. Því miður hefur sú breyting ekki verið til góða þegar á heildina er litið. Fækkun starfa, m.a. í sjávarútvegi og landbúnaði, hefur haft þau áhrif að fólksfækkun hefur orðið á svæðinu. Það er nefnilega þannig, eins og við vitum öll, að á bak við einstakling sem missir vinnuna er oft fjölskylda. Þegar atvinnumissir verður og enga atvinnu er að fá á svæðinu er eini kosturinn í stöðunni að flytja í burtu. Þessi einstaklingur flytur í burtu og tekur fjölskyldu sína með sér. Það getur haft áhrif á ýmsa þætti, eins og verslun og þjónustu.

Þessa dagana og vikurnar berast ekki góðar fréttir af svæðinu, því miður. Við höfum fengið fréttir af uppsögnum sjómanna og nú vofir yfir að fleiri sjómenn gætu misst vinnuna þar sem togari á svæðinu er kominn á sölu. Því miður eru fleiri fyrirtæki að hætta og segja upp starfsfólki. Það er slæmt að horfa upp á það. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi tillaga nái fram að ganga og að komið verði á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga. Við sem þingmenn verðum að horfast í augu við hver staðan er. Standa þarf vörð um opinber störf úti á landi og spyrna fótum við því að störf fari af landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Ég fór í fundaferð um Norðurland vestra um síðustu helgi og er óhætt að segja að það er áhyggjutónn í fólki á svæðinu. Ég skil það mætavel. Það er ekki gaman að horfa á eftir einstaklingum og fjölskyldum sem vilja búa á svæðinu en vantar atvinnu og þegar atvinnuna vantar verður fólk að fara. En Norðurland vestra býr yfir miklum atvinnumöguleikum og með því að nýta m.a. orku Blönduvirkjunar til atvinnuuppbyggingar geta skapast mörg störf á svæðinu, sem væri til bóta sama um hvaða starf er að ræða, hvað sem er. Það gæti verið orkufrekur iðnaður, eins og talað er um í tillögunni. Ef sú yrði raunin mundu eflaust spretta upp ýmis atvinnutækifæri í kringum iðnaðinn og þjónustu við hann.

Virðulegur forseti. Ég vona að þessi tillaga til þingsályktunar komist í gengum þingið til að styrkja svæðið.