143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.

39. mál
[19:13]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu áliti utanríkismálanefndar, þessu jákvæða áliti. Þetta áhyggjuefni í Færeyjum og Grænlandi er dálítið athyglisvert, altsvo á meðan ein helsta áskorunin í Færeyjum er fólksfækkun, einkum fækkun kvenna. Það sama gildir um Grænland en síður um Ísland. Á sama tíma setjum við lög hér á Íslandi og höfum áhyggjur af lítilli þátttöku kvenna í félagsstörfum, stjórnum og þess háttar.

Að mínu mati er þetta talsvert áhyggjuefni þó að menn geti kannski brosað út í annað með þetta mál, en kannski á þetta við víðar, kannski getum við átt von á sama vandamáli og kannski er það nú þegar til staðar á sumum stöðum hjá okkur, á Íslandi, þar sem dreifbýlið er sem mest. Ef til vill þurfum við að fara að hafa áhyggjur og velta því fyrir okkur.

Þess vegna held ég að við ættum að taka þessa tillögu alvarlega því að til er fjöldi rannsókna og kannana sem hafa verið gerðar í Noregi, Danmörku og Vestur-Norðurlöndum um slíka þróun. Hins vegar er sú þekking, eins og segir hér í tillögunni, sem er til staðar og nýta mætti til grundvallar tillögum og stefnumörkun hvers markmið væri að snúa þessari þróun við, ekki nægilega vel kynnt eða aðgengileg einstaklingum og hópum með stefnumótunar- og ákvörðunarvald, ekki síst stjórnmálamönnum.

Ég held að við ættum að taka þetta svolítið alvarlega og gera samantekt á rannsóknum og þeirri þekkingu sem til er og reyna að mynda okkur skoðun og koma með einhverja stefnumörkun til að forðast að það sama hendi hér í náinni framtíð.