143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða.

42. mál
[19:32]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari tillögu og vil bara koma hingað upp til þess að ítreka hversu mikilvægt það er fyrir okkur að styrkja sambandið milli þessara þriggja landa á meðan ríki heims sýna norðurslóðum vaxandi áhuga vegna þeirra áhrifa sem loftslagsbreytingar munu hafa og hafa nú þegar haft. Þessi þróun skapar þrýsting á þessi lönd sem ættu að íhuga hvernig þau geti best staðið vörð um sameiginlega hagsmuni, t.d. í umhverfis- og atvinnumálum.

Ég sat fund með fulltrúum þessara ríkja í Vestnorræna ráðinu á Grænlandi í haust og skynjaði þar hvað þessar þrjár þjóðir eiga margt sameiginlegt og vil því ítreka hvað það er mikilvægt fyrir bæði okkur og þau að standa saman. Í mörgum málum, t.d. björgunarmálum, er svo mikilvægt að við stöndum saman og stillum saman strengi, ekki síst gagnvart öðrum ríkjum því að ásókn annarra ríkja er alveg gríðarleg hingað norður eftir.

Ég ítreka við alþingismenn og ríkisstjórnina að efla og treysta þetta samstarf eins og mögulegt er.