143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

skaðsemisábyrgð.

91. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd tók þetta mál inn á milli umræðna vegna þess að við vildum skoða betur athugasemdir sem borist höfðu nefndinni varðandi breytingar sem nefndin hafði lagt til á 3. gr. frumvarpsins fyrir 2. umr. málsins, en breytingin laut að því að skaðsemisábyrgð dreifingaraðila skyldi byggjast á sakarlíkindareglunni. Niðurstaða nefndarinnar var sú eftir umræðu um málið að leggja ekki til neinar breytingar á því með hvaða hætti málið fór í gegn hér í þinginu við 2. umr. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Það helsta sem fram kom í umsögn Félags atvinnurekenda var að þeir gagnrýndu þessa breytingu vegna þess að þeir töldu að með henni væri sett meiri ábyrgð á dreifingaraðila en tilskipunin frá Evrópusambandinu mælti fyrir um og að betur færi á því að taka ákvæði tilskipunarinnar beint upp í staðinn fyrir að byggja ábyrgð dreifingaraðila á sakarlíkindareglunni.

Við ræddum þetta í þaula í nefndinni og tiltökum mál í nefndarálitinu þar sem reynt hefur á þessa reglu. Um er að ræða danskt mál þar sem fram kemur að tilskipunin stendur ekki í vegi fyrir því að aðildarríki geti mælt fyrir um skaðsemisábyrgð á öðrum grundvelli en hlutlægri ábyrgð.

Við bendum hér á að þegar ákvæði dönsku laganna voru endurskoðuð í kjölfar þessa dóms sem ég vísaði til, var lagt til grundvallar að ekki yrði gengið lengra í að takmarka ábyrgð dreifingaraðilanna en leyfilegt væri samkvæmt Evrópurétti. Þar var litið til þess að með því að byggja ábyrgð dreifingaraðila á sakarlíkindareglunni væri verið að tryggja rétt neytenda. Nefndin byggir niðurstöðu sína á þeim sjónarmiðum sem liggja að baki ákvæði dönsku laganna.

Við teljum líka í nefndinni að þær breytingar á frumvarpinu sem lagðar voru til eru til þess fallnar að gera hlut dreifingaraðila sterkari. Í gildandi lögum þarf tjónþoli ekki að sanna sök. Dreifingaraðili getur á engan hátt varist, enda ber hann hlutlæga ábyrgð. Með sakarlíkindareglunni getur dreifingaraðili firrt sig ábyrgð ef hann sannar að engin sök liggi hjá honum.

Einnig telur nefndin rétt að benda á að lög um skaðsemisábyrgð takmarka ekki rétt tjónþola til bóta eftir almennum reglum um skaðabætur og vísum til þess hér í nefndarálitinu.

Undir þetta skrifa sú sem hér stendur, Páll Valur Björnsson, Höskuldur Þórhallsson, Elsa Lára Arnardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason, allt hv. þingmenn.