143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

viðbótarbókun við samning um tölvubrot.

228. mál
[19:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er enn og aftur eitthvað komið inn á Alþingi og frá Evrópu sem varðar takmörkun á tjáningarfrelsi þótt jafnan sé talað þannig að ekki sé takmörkun á tjáningarfrelsi heldur bara verið að refsa fyrir einhvers konar tjáningu. Nú hafna ég því ekki að gera þarf suma tjáningu refsiverða, þ.e. ef hún brýtur beinlínis á réttindum annarra, svo sem öryggi eða friðhelgi einkalífs, eða vegna rannsóknarhagsmuna, þ.e. vegna þess að fólk hefur rétt til sanngjarnrar málsmeðferðar o.s.frv.

Ég hef alltaf smááhyggjur af svona hlutum og ég tek eftir því hér í athugasemdum við þingsályktunartillöguna að Ísland er með fyrirvara á sumum þáttum bókunarinnar sem er vel, mætti vera meira af þeim að mínu mati að vísu, en það er betra að það sé eitthvað af fyrirvörum. Mig langaði að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort einhverjar líkur væru á því að þetta leiddi af sér að sá sem heldur utan um vefsvæði sé gerður ábyrgur fyrir einhverju ljótu sem er sagt á netinu af notendum þannig að ábyrgðin færist yfir.

Mér sýnist það í fljótu bragði og ég er logandi hræddur við það vegna þess að það er algjör forsenda þess að við losnum við kynþáttafordóma og fordóma almennt að fólk geti rætt máli. Ef það getur ekki rætt málin á þessi umræða sér ekki stað og lausnin hér virðist oft vera að laga það með því að láta dómstóla ákveða hvað sé rétt og rangt, sem er auðvitað vitfirrt leið að mínu mati. Alla vega vildi spyrja þessarar spurningar.

Sömuleiðis vildi ég spyrja hver raunverulegu lagaleg áhrif þessara fyrirvara eru. Þýðir það að við þurfum ekki að taka upp þau efnisatriði sem við höfum fyrirvara á?