143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

viðbótarbókun við samning um tölvubrot.

228. mál
[19:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ljóst að við getum fullgilt þessa bókun, tekið hana og gert hana að okkar, án þess að taka inn þá þætti sem við gerum fyrirvara við. Það hafa, eins og kemur fram hér, Danir og ýmsir aðrir gert, þ.e. þeir gera fyrirvara við ákveðna hluti, þar af leiðandi eiga þeir ekki við þegar á reynir.

Varðandi fyrri spurninguna, þ.e. hver ber ábyrgðina, hvort það er sá sem hýsir vefsvæði eða slíkt — eins og þetta stendur hér er það fyrst þegar viðkomandi er kunnugt um að um er að ræða refsiverða starfsemi sem um einhvers konar ábyrgð getur verið að ræða, þ.e. að tövunotandinn, eða sá sem er að sýsla með þetta, er fyrst ábyrgur þegar hann hefur vitneskju um efnið. Bókunin í sjálfu sér gerir því ekki ráð fyrir að verið sé að vakta heimasíður eða gagnabanka.

Ég veit að hv. þingmaður er mjög vel að sér þegar kemur að efni sem þessu. Það er mjög mikilvægt að í meðferð þessa máls á Alþingi í utanríkismálanefnd og að sjálfsögðu hér í þingsal séu menn mjög meðvitaðir um það og skoði það mjög vandlega hvort þeir fyrirvarar sem við gerum séu nægjanlegir til að ná því fram sem verið er að reyna að gera, þ.e. að gera ákveðna hluti refsiverða en gæta þess jafnframt að skerða ekki tjáningarfrelsi á þann veg að við getum ekki sagt að við lifum hér í frjálsu landi.

Ég vona að hv. þingmaður muni beita sér og miðla þeirri þekkingu sem hann hefur á þessu máli hér í þinginu.