143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á umræðu og skrifum um það sem kalla má stöðu réttarkerfisins og þar með talið hlutverk dómstóla í sambandi við meðferð hrunmála eða þeirra mála sem leiddu af falli bankanna á Íslandi og hruninu sem því tengdist. Það er tvennt sem mér finnst nokkurt umhugsunarefni í þessu sambandi, annars vegar sú staðreynd að það hafa verið skertar nokkuð fjárveitingar til embættis sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari upplýsir nú í viðtölum við fjölmiðla að það geti leitt til þess að úrvinnsla þessara mála tefjist enn frekar en orðið er.

Það hlýtur að vera okkur nokkurt umhugsunarefni.

Að hinu leytinu eru athyglisverðar tilraunir, sem ég held að verði að kalla, að því er virðist til þess að hafa áhrif á dómstólana í sambandi við þessi mál. Það ber nokkuð á því um þessar mundir að bæði leikir og löglærðir fjalli um hlutverk og stöðu dómstólanna í þessu sambandi og séu að reyna að senda þeim þau skilaboð að dómstólarnir verði að forðast að láta andrúmsloftið í samfélaginu hafa áhrif á sig. Sumir tala um eitthvert hatursandrúmsloft í þessum efnum, en er þá ekki á ferðinni akkúrat það sem þessir sömu menn eru að biðja menn að varast, þ.e. tilraunir til þess að hafa áhrif á dómstólana, en þá í gagnstæða átt?

Ég tel hvort tveggja nokkurt umhugsunarefni, það sem snýr að starfsskilyrðum og aðstöðu sérstaks saksóknara og sömuleiðis að dómstólarnir í landinu hafi sæmilegan starfsfrið og sjálfstæði þeirra sé virt. Ég tel að Alþingi beri að standa vörð um það í þeim skilningi að það þarf að skapa réttarkerfinu viðunandi starfsskilyrði og tryggja sjálfstæði þess. Alþingi sem löggjafi og fjárstjórnarvald hefur þar hlutverki að gegna þó að það blandi sér að sjálfsögðu að öðru leyti ekki inn í þessi störf.

Ég leyfi mér þess vegna að velta því upp hvort ekki sé ástæða til þess að viðeigandi (Forseti hringir.) þingnefndir, sem gætu verið allsherjarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fari yfir þessa stöðu.