143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri til að hrósa ASÍ fyrir það hvernig sambandið hefur gengið fram á undanförnum dögum við að reyna að halda aftur af almennum verðhækkunum til að tryggja hér stöðugleika. Stöðugleiki í efnahagslífinu er eins og við vitum undirstaða þess að þær launahækkanir sem hefur verið samið um skili sér.

Það sem ASÍ hefur gert er að höfða beint til neytenda í þessu máli með skýrum og skilmerkilegum hætti. Það er gert í gegnum netsíðu sem heitir vertuaverdi.is. Þar er fólk beðið um að láta vita þegar hækkanir verða, og lækkanir, undir kjörorðinu: „Stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar.“

Í framhaldi af þessu hefur ASÍ svo sett upp tvo lista með nöfnum fyrirtækja eftir því hvort þau hækka verð eða lækka. Það er ánægjulegt að sjá að yfir 50 fyrirtæki hafa sent inn yfirlýsingu um að þau ætli ekki að hækka verð. Ég er ekki í nokkrum vafa um að mjög margir skoða þessa lista og beina frekar viðskiptum til þeirra sem vilja stuðla að stöðugleika í landinu.

Þetta framtak ASÍ er alveg sérstaklega gott vegna þess að það er svo einfalt og markmiðið er svo skýrt. Allir geta tekið þátt, það eina sem menn þurfa að gera er að smella á einn hnapp til þess að rjúfa þann vítahring sem verðbólgan setur okkur í.

Ég er sannfærð um að með svona aðferðum getum við komið mjög góðu til leiðar í því skyni að halda verðbólgunni lágri svo að kauphækkanir skili sér í auknum kaupmætti.