143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Hæstv. forseti. Nokkur bifreiðaumboð eru farin að auglýsa vaxtalaus lán. Gefið er í skyn að hér sé gullið tækifæri fyrir neytendur en þegar þessi vaxtalausu bílalán eru skoðuð nánar eru þau ekki án kostnaðar frekar en önnur lán. Vextirnir eru einfaldlega greiddir fyrir fram í formi hærra kaupverðs. Bifreiðaumboðin setja sérstök skilyrði fyrir vaxtalausa láninu, lántakinn fær ekki þá afslætti eða fylgihluti sem annars byðust. Kostnaður vaxtalausra lána er heldur ekki endilega minni en vaxtaberandi bílalána. Tökum raunsætt dæmi um viðskiptavin sem tekur vaxtalaust bílalán og fer þannig á mis við 6% staðgreiðsluafslátt af nýjum bíl. Hann fær lánuð 40% af kaupverðinu, greiðir lánið niður á þrem árum og þá má reikna út að hann er í raun að greiða 10% ársvexti af láninu út lánstímann — fyrir fram.

Í lögum nr. 33/2013, um neytendalán, er lánveitendum gert skylt að reikna út og upplýsa lántakanda um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Markmiðið er að neytendur geti borið saman ólík lánsform og gert sér grein fyrir heildarkostnaði við lántökuna. Mér er ekki kunnugt um að bifreiðaumboðin hafi farið eftir þessu ákvæði þegar um er að ræða vaxtalaus bílalán. Þau virðast túlka lögin þannig að þeim sé ekki skylt að gera það. Ef það er hægt að túlka lögin með þeim hætti tel ég tilefni til þess að löggjafinn geri lögin skýrari svo þau nái þeim tilgangi sínum að lántakendur séu ávallt upplýstir um heildarkostnað lána. Að öðrum kosti er kominn hvati til að velta lántökukostnaði út í almennt verðlag og fela hann þannig fyrir neytendum.

Fái þetta að viðgangast er hætta á að neytendur steypi sér í meiri skuldir. Einnig er líklegt að verð á bílum og öðrum neysluvörum sem fólk vill kaupa á afborgunum muni hækka. Þá mun neysluvísitalan hækka og um leið verðtryggðar skuldir heimilanna. Hafa ber í huga að fyrir hvert prósent sem neysluvísitala hækkar hækka skuldir heimilanna um 14 milljarða.

Það er því full ástæða til að vekja athygli á málinu. Málið var reifað á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun og var ákveðið að nefndin tæki það til skoðunar.