143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að nota tækifærið til að óska öllum gleðilegs árs og þakka fyrir það gamla. Þetta var mjög lærdómsríkt og gott ár, það síðasta. Þegar maður er að velta því fyrir sér hvernig maður vill presentera sig í stjórnmálum eða koma fram velur maður sér fræðimenn sem maður vill lesa um og fara eftir. Einn af þeim er Páll Skúlason og hann flutti mjög athyglisvert erindi á jóladag 2008 í Ríkisútvarpinu. Mig langar að vitna í lokakafla eða lokaefnisgrein þess þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Nú skulum við hugsa og ræða saman á nýju ári eins og við séum að hefja landnám að nýju á Íslandi og ætlum okkur að skapa hér andlegan samastað fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. Og þetta skulum við gera með því að leggja okkur fram um að ræða þau gildi sem við viljum hafa í hávegum, með því að gæta jafnvægis á milli allra sviða þjóðlífsins og með því að vanda til þess hvernig við deilum lífsgæðum á milli okkar, hvernig við deilum með okkur sameiginlegum gæðum lífsins og hvernig við deilum um lífsgildi. Megi hófstilling, hugrekki og viska fylgja hinu nýja landnámi okkar.“

Annar fræðimaður sem ég hef mjög gaman af að lesa heitir Gunnar Hersveinn og hann er með heimasíðu sem heitir Þjóðgildin. Hann talar meðal annars um lífsgildi og dyggðir. Ein af þeim dyggðum sem hann talar um er hófsemdin. Hann segir:

„Hófsemdin er ekki vinsæl í fræknum hópi dyggðanna í hraðasamfélagi nútímans.“

En hvað er hún? Hann segir að hún sé agi til að standast, agi til að þora, agi til að hætta við, agi til að vinna afrek, hún sé ekki fylginautur kúgunar heldur jafnvægis. Jöfnuður vísar til dreifingar á valdi og störfum, jöfn tækifæri og jafnir möguleikar til mennta og starfa. Hófsemdin er nauðsynleg til að skapa réttlátt samfélag, eigna-, launa- og mannjöfnuð. Jöfnuður breytist í draumóra ef hennar nýtur ekki við.

Hann segir líka: „Það er sama hvar borið er niður, við þurfum á hófsemdinni að halda. Frelsið er blaðra. Hófsemdin er snærið sem bundið er um blöðruna. Hófsemdin er taumhald. Án hófs fyki frelsið út í veður og vind. Hófsemdin er mörk kærleikans, fegurð fjölskyldunnar, lykill ábyrgðarinnar, skynsemi heiðarleikans og æðasláttur traustsins. (Forseti hringir.) Hófsemdin vísar veginn til jafnvægis í samfélaginu og rósemdar hjartans.“ (Gripið fram í: Amen.)