143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er ánægður að heyra þann einlæga áhuga sem hér ríkir um vöruverð í landinu, því að framan af á örstuttum þingmannsferli mínum fannst mér ég oft tala einn um það mál, ég fagna því mjög.

Ég ætla hins vegar að tala um annað mál nú sem ég hef ætlað að taka upp í alllangan tíma en ekki komið í verk. Mig langar að vekja athygli á þeim hörmungum sem steðja að sýrlensku þjóðinni og hafa gert í um þrjú ár. Á þeim tíma sem borgarastyrjöld hefur staðið þar yfir hafa 120–130 þús. manns fallið, þar af þriðjungur almennir borgarar, flest konur og börn. Væntanlega hafa 5 þús. börn látist í Sýrlandi á þessum tíma. Þarna hafa verið gerðar efnavopnaárásir en nú hillir undir að efnavopn verði flutt þaðan úr landi. Þrátt fyrir að ég sé orðinn þetta gamall þá man ég ekki eftir styrjöld lengi þar sem börn eru beinlínis skotmörk leyniskyttna, en það hefur því miður gerst í þessu andstyggðar stríði.

Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa tekið þetta upp og vakið athygli á þessu, en það er því miður ekki fyrirsjáanlegt að nein breyting verði á vegna þess að þeir sem byltinguna hófu virðast vera orðnir enn sundurlausari hjörð en áður og berjast jafnvel innbyrðis þannig að grípi alþjóðasamfélagið ekki með einhverjum hætti í taumana er hætt við því að þessir voðaatburðir haldi áfram og að þessar hörmungar, sem nú eru farnar að kristallast líka í hungursneyð fólks, dragist á langinn. Því verður að beita öllum ráðum til að stöðva þessi stríðsátök. Ég vil þess vegna skora á hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina og okkur öll hér að gera það sem í okkar valdi stendur hvar sem er og hvenær sem er til að (Forseti hringir.) binda enda á þessar hörmungar.