143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta öðru en því að við höfum frá hruni, vegna þeirrar stöðu sem ríkið er í fjárhagslega, geymt okkur ákveðnar hugmyndir um hvernig við getum byggt upp að nýju. Ég tel að við séum komin á þann stað núna að eðlilegt sé að við förum að skoða grunnþjónustuna, greina hana og kanna hvað megi skilgreina sem grunnþjónustu á ólíkum sviðum og athuga síðan hvaða tækifæri mismunandi landshlutar og byggðarlög hafa til þess að njóta þeirrar grunnþjónustu. Ef ekki er hægt að veita grunnþjónustu með neinum hætti, hvaða leiðir aðrar höfum við til þess að jafna þann aðstöðumun? Ég veit að hv. atvinnuveganefnd mun fara vel yfir málið og ég treysti henni til allra góðra verka.