143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu og taka undir meginmarkmiðin með framkvæmd áætlunarinnar, þ.e. að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt.

Ég hef gagnrýnt í fyrri slíkum tillögum að mér finnst þær vera svolítið efnislitlar og tiltölulega fá atriði í þeim. Það sem mig langar til þess að biðja hæstv. ráðherra að hjálpa mér með, af því hann vitnaði í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, er kannski að greina í hverju þær tillögur sem hér koma fram eru öðruvísi eða nýjar frá því sem áður var.

Í öðru lagi vekur athygli að það eru ekki miklir peningar í þessu frekar en stundum áður, nema hvað varðar framkvæmdir við Bakka og óljóst er hvað breytingar í Helguvík mundu kosta. Þá spyr maður líka hvað fylgi með til þess að gera hlutina. Það er galli við svona áætlanir og sérstaklega finnst mér áberandi í þessari að það er dálítið mikið verið að láta athuga, safna upplýsingum, skoða hvað þarf, fara í tölfræði, en það er minna um hvað á að gera.

Í samhengi við þá spurningu hvaða breytingar er að finna hér frá fyrri stefnu langar mig að spyrja hvað það er í fjárlögum fyrir árið 2014 sem undirbyggir eða styður við þessa áætlun. Hluti af því sem við gagnrýndum var að sambærilegri vinnu á síðasta kjörtímabili, sem var t.d. mjög metnaðarfull vinna við sóknaráætlun, þar sem var dregin var saman vinna sveitarfélaga og hins opinbera, þverpólitísk vinna — henni var meira og minna hent út í fjárlögum.

Mig langar að heyra viðbrögð ráðherra við því hvaða breytingar eru frá fyrri stefnu og hvernig brugðist er við í núverandi fjárlögum og heyra skoðun hans varðandi sóknaráætlun.