143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017.

Eins og komið hefur fram hafa sambærileg plögg verið lögð fram hér undanfarin ár og allt gott og blessað með það. En ég er orðin meira en tvævetra og ég verð að segja að ef allt það hefði verið framkvæmt sem lagt hefur verið upp með í þessum byggðaáætlunum í gegnum árin hefðum við, sem höfum eytt ævi okkar úti á landsbyggðinni, ekki þurft að hafa miklar áhyggjur því að vissulega hafa komið þar fram mörg góð og göfug markmið um jöfnun búsetuskilyrða og ýmiss konar átaksverkefni til að svo megi verða, en því miður hefur það nú ekki gengið eftir.

Ég hef sagt það áður að ég tel þá byggðastefnu sem rekin hefur verið hér, segjum síðustu 20 ár, vera í algjöru skötulíki. Hún hefur verið mjög ómarkviss og fyrst og fremst miðast við að plástra þegar vandamálin eru komin upp og erfiðleikar steðja að og oft þegar allt er komið í óefni þá bregðast menn við, stundum í fljótræði, og klastra upp á, en ekki að menn séu að vinna markvisst eftir áætlunum til að koma í veg fyrir að hlutirnir fari á verri veg. Ég held að mjög margir geti tekið undir þessi orð mín sem hafa búið úti á landsbyggðinni og sérstaklega á þeim svæðum sem hafa átt undir högg að sækja eins og er á öllum landshornum, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austfjörðunum og Suðurlandi og víða á Vesturlandi líka. Þar er fólk kannski hætt að trúa fögrum orðum og vill sjá að verkin tali og að lagðir séu fjármunir í hlutina, að þeir fylgi mörkuðum stefnumótandi byggðaáætlunum.

Það sama segi ég um þetta plagg svona í fyrstu umræðu að ég ætla ekki að lofa það fyrr en ég sé að fjármagn sé lagt með sem geri gagn fyrir þau ýmsu góðu verk sem þarna eru talin upp, þó að mér finnist þetta vera frekar loðið og ekki nægjanlega markvisst sett upp. Mér finnst ríkisstjórnin ekkert byrja vel eða vera sérstaklega landsbyggðarvæn í verkum sínum í fjárlögum, svo að ég komi bara inn á það. Það má þá mikið breytast ef hún ætlar að snúa af þeirri vegferð og það er bara gott ef hún ætlar sér að gera það. Við þekkjum það úr umræðum um fjárlögin að mikið gekk á við að reyna að ná einhverju til baka sem var skorið niður úti á landsbyggðinni. Það var víða skorið niður, eins og í sóknaráætlun, sem þó náði einhverju fjármagni til baka, sóknaráætlun sem er í raun í verki byggðaáætlun í framkvæmd með fjármagni. Þar var skorið niður úr 400 milljónum og var hægt að ná til baka 85 milljónum svo að þetta endaði í 100 milljónum í stað 400 milljóna.

Skorið var niður í jöfnun húshitunarkostnaðar, menningarsamningar voru skornir niður, uppbygging á veikum svæðum eins og í Skaftárhreppi, Kirkjubæjarklaustri sem ríkið ætlaði að leggja fé í, þar var skorið niður. Brothættar byggðir voru undir, okkur tókst að ná því fjármagni aftur til baka, 50 milljónum, og þannig mætti áfram telja. Markaðar tekjur til vegagerðar og háhraðatengingar, markaðar tekjur í fjarskiptasjóð, þær áttu ekki að skila sér til uppbyggingar háhraðatenginga um landið eins og áætlað var heldur áttu að fara í Farice. Stuðningur við flug á ríkisstyrktum leiðum skorinn niður, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, sem vissulega hefur skilað miklu út á dreifðar byggðir landsins, þar var skorið niður.

Allt voru þetta verkefni sem hægt var að halda áfram með, góð verk frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Og þó að ástandið hafi nú verið eins og það var eftir hrun markaði síðasta ríkisstjórn þá vegferð að hún ætlaði að vinna að því að leggja landsbyggðinni lið og fara í framkvæmdir eftir getu og í áföngum til að byggja upp víða á landsbyggðinni í verki og vann þar með heimamönnum eins og að sóknaráætlun og fleiri góðum verkum. En það var skorið niður eins og í endurgreiðslu skatta til nýsköpunarfyrirtækja, sem hefur skilað sér út á land og til skapandi greina og rannsókna, sem hefur skilað sér vel í uppbyggingu fyrirtækja úti um land.

Ég vil bara nefna þetta vegna þess að hversu vel sem svona fögur fyrirheit líta út á blaði í þingsályktunartillögu þá eru það þegar upp er staðið verkin sem tala. Verk þessarar ríkisstjórnar hafa hingað til ekki verið sérstaklega landsbyggðarvæn og menn mega þá taka sig mikið á, og ég ætla að gefa þessari ríkisstjórn tækifæri til þess, án þess að segja að henni sé alls varnað, en ég mun ekki gefa henni langan frest til þess, því að það kemur í ljós strax á þessu ári hvort landsbyggðin eigi að hrekjast áfram undan vindi og menn á ýmsum stöðum með góðar áætlanir. Menn tala oft digurbarkalega á hátíðarstundum um mikilvægi landsbyggðarinnar, en þegar skipta á kökunni og fjármagninu hefur það ekki reynst sérstaklega auðvelt að draga fé til landsbyggðarinnar þó að hún skili ríkissjóði miklum tekjum, bæði í útflutningsgreinum okkar og í landbúnaði, í gegnum alla matvælaframleiðslu úti um allt land og ýmiss konar starfsemi í ferðaþjónustu sem hefur verið að byggjast ört upp á landsbyggðinni undanfarin ár.

Mér finnst því ekki að við landsbyggðarmenn þurfum að ganga fram sem ölmusuþegar og þiggja bætur hér og þar. Það á bara að gefa rétt í þessu þjóðfélagi og þeir fjármunir sem skapast úti á landi og skila sér í ríkissjóð eiga að skila sér með réttmætum hætti aftur til baka. Ef það mundi gerast þannig væri landsbyggðin bara ágætlega stödd og ég held að það fólk sem býr á landsbyggðinni geti alveg tekið undir það. En það er oft tregara að fá fjármagnið aftur til baka en greiða það í ríkiskassann þegar það er innheimt.

Ég held að við verðum að fara að bretta upp ermarnar. Ef við meinum eitthvað með því að við viljum vinna að stefnumótandi byggðaáætlun þá verður það að vera miklu markmiðsmiðaðra og með fjármagni, því að annars eru þetta bara fögur fyrirheit sem allir eru hættir að hafa trú á að skili sér til þeirra svæða sem í hlut eiga. Ég held að þannig viljum við ekki sjá þessa hluti þróast.

Við höfum tækifæri og tækifærin liggja úti á landsbyggðinni og þess vegna er það hagur allra landsmanna að unnið sé að uppbyggingu og byggðaáætlun um landið sem skilar sér.