143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[17:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta mér þær fimm mínútur sem ég má hér í seinni ræðu minni um þá byggðaáætlun sem liggur frammi, þingsályktunartillögu, og fara aðeins inn í hana þar sem fjallað er um reynslu af byggðaáætlun 2010–2013, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Reynslan af byggðaáætlun 2010–2013 sýndi að erfitt var að halda með skipulögðum hætti utan um svo mörg ólík verkefni. Ekki var heldur nægjanlegt tillit tekið til ýmissa stórra áætlana á vegum ríkisins, svo sem samgönguáætlunar og fjarskiptaáætlunar.“

Ég er ekki alveg sammála því að ekki hafi verið tekið tillit til áætlana. Hér erum við að ræða um byggðaáætlun og svo eigum við samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, heilbrigðisáætlun og ég veit ekki hvað.

Á síðasta kjörtímabili unnust margir og stórir sigrar, bæði í samgöngu- og fjarskiptamálum, í þessum tveimur áætlunum. Ég gat um það áðan, þar sem talað er um samgönguþáttinn í þeirri byggðaáætlun sem hér er fjallað um, og ítreka það hér, að hin mikla stefnumótun kemur fram í samgönguáætlun.

Samgönguáætlanir liðinna ára allt aftur til ársins 2007 og jafnvel fyrr, 2006–2007, voru mjög metnaðarfullar. Þar voru mestu framkvæmdir sem nokkurn tíma hafa átt sér stað á sviði samgöngumála, aldrei var eins miklu fé varið til uppbyggingar samgöngukerfisins eins og þar var. Meira að segja á hrunárinu 2009 og á árunum þar á eftir, 2009–2010. Það eru vonbrigði hvernig þetta hefur gírast niður og hve lágar upphæðir fara til samgönguframkvæmda miðað við það sem áður var. Þetta er bagalegt vegna þess að nokkrir staðir eru eftir sem þarf virkilega að gefa í hvað þetta varðar og hef ég áður nefnt þá staði. Sá þáttur sem varðar byggðamál var mjög vel skipaður og tókst mjög vel til með það á síðasta kjörtímabili og í byrjun þess kjörtímabils sem hófst 2007 með metnaðarfullri samgönguáætlun sem sá sem hér stendur tók við sem samgönguráðherra og sem betur fer var hægt að halda áfram með hana, fylgja henni eftir og gefa í ef eitthvað var; ég tala nú ekki um eins og ég sagði áðan á hrunárunum.

Það sama á við um fjarskiptaáætlun. Mikið og stórt átak var gert. Þó verður að segjast eins og er að tæknin er það mikil, henni fleygir fram, að það sem menn töldu mjög gott 2008 og 2009 er bara engan veginn nógu gott í dag. Það er bara þróunin. Þess vegna fagna ég líka, sem kemur hér fram og er í gildandi fjarskiptaáætlun, þeim markmiðum sem þar er rætt um um að fjölga heimilum sem hafa aðgang að 30 megabæta tengingu árið 2014 og allt upp í 100 megabæt á árunum 2014–2022. Því miður gerir hinn frjálsi markaður ekki nóg í þessu, þess vegna hefur ríkið þurft að koma að málum og þar voru peningar notaðir í fjarskiptaáætlun til að gera það sem gert var. Það skipti sköpum en enn og aftur ítreka ég að betur má ef duga skal og þar skipta tækniframfarir líka máli en þar koma líka ýmsar landfræðilegar hindranir fram.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að fagna því sem hér er sagt um sóknaráætlun landshluta, þ.e. að færa aukin völd heim í hérað til landshlutanna í forgangsröðun og útdeilingu ríkissjóðs til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Það er metnaðarfull áætlun og ég fagna því að hún skuli vera nefnd hér og sett þannig inn.

Ég get nefnt ótal dæmi um farsæla niðurstöðu í því þegar verkefni eru færð heim í hérað. Ég sé hér aðila sem á ættir að rekja til Vopnafjarðar. Ég er til dæmis ákaflega stoltur af því sem gert var á síðasta ári þegar rekstur Sundabúðar, öldrunarheimilis á Vopnafirði, var færður til sveitarfélagsins. Þar var metnaðarfull sveitarstjórn sem var tilbúin að taka þetta að sér og tók það yfir frá rekstri Heilbrigðisstofnunar Austurlands þar sem vandkvæði voru í samskiptum og ýmsir erfiðleikar í fjármögnun heilbrigðiskerfisins á þessum erfiðleikatímum og átti að nota til að skera niður starfsemi þar. Þetta er gott dæmi um það þegar við tökum niður rekstur og færum hann heim í hérað. Þetta er vel lukkað og má tala um það á fleiri sviðum.

Virðulegi forseti. Tími minn er búinn núna en ég hefði svo sem alveg getað tekið smátíma í viðbót til að ræða um fiskveiðistjórnarkerfið og það sem við erum að gera við nokkrar byggðir, þ.e. með byggðakvóta Byggðastofnunar, þau 1.800 þorskígildi sem þar eru, sem ég held að sé nokkuð metnaðarfull og góð aðgerð.