143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[17:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get hafið ræðu mína þar sem síðasti ræðumaður sleppti orðinu og tek undir það að aðgerðir Byggðastofnunar um að koma þessum 1.800 þorskígildistonnum til hinna dreifðu byggða hafi heppnast vel. Reyndar hafa svæði eins og Breiðdalsvík og önnur svæði orðið út undan og við þurfum að skoða sérstaklega, (KLM: Hrísey.) og Hrísey, hvernig megi koma til móts við þau svæði sem eiga í mikilli varnarbaráttu. Það er mikið og stórt verkefni fram undan í þeim efnum.

Ég fagna því að komin er fram tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017. Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram út af ákvæði í lögum og sýnir svona nokkurn veginn hvað það er sem stjórnvöld vilja gera á þessu árabili. Því miður hefur reyndin verið þannig að þetta hafa frekar verið svona göfug markmið en raunhæfar tillögur um hvað þurfi að gera til að snúa neikvæðri byggðaþróun við í landinu sem er að mínu mati ein stærsta vá sem snýr að íslensku samfélagi. Við hljótum öll að vera sammála um það að Íslandi og íslensku samfélagi er best borgið þannig að við reynum að hafa byggð sem víðast um landið, hringinn í kringum landið, reynum að styrkja einstaka byggðakjarna, sérstaklega þá sem eiga undir högg að sækja, hvort sem er með auknum samgöngum eða betri internettengingu og betri fjarskiptum. Og ég er glaður að sjá að hér eru raunhæfar áætlanir hvað það varðar.

Það er eitt sem mig langar að benda á sérstaklega. Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt mjög ítarleg og róttæk byggðastefna þar sem fyrirmyndin er sótt til Noregs en Norðmenn eru sú þjóð sem hafa gengið hvað lengst í að reyna að sporna við þeirri neikvæðu þróun og hafa farið út í það að koma með ýmsar skattaívilnanir til fyrirtækja og einstaklinga. Sýnt hefur verið fram á að þær aðgerðir hafa ekki bara stöðvað hina neikvæðu þróun fólksfækkunar heldur hefur líka tekist að snúa við blaðinu þannig að hagvöxtur hefur myndast á svæðum þar sem viðvarandi samdráttur hefur verið í langan tíma.

Í þessari áætlun er lagt til að það verði skoðað hvort beita megi skattaívilnunum á borð við lækkun tryggingagjalds til að styðja við fyrirtæki á efnahagslega veikum svæðum. Í Noregi er það þannig að þau fyrirtæki sem eru nálægt Óslóarsvæðinu greiða um 16% tryggingagjald sem fer svo stiglækkandi eftir því sem norðar dregur eða eftir fjarlægð frá Ósló, þannig að þau fyrirtæki sem eru nyrst í Noregi greiða ekkert tryggingagjald. Með því er verið að reyna að laða fyrirtæki inn á þau svæði með einum eða öðrum hætti og sú aðgerð hefur tekist mjög vel og mikil og góð sátt er um þetta meðal Norðmanna. Það eru ekki bara Íslendingar sem hafa verið að velta fyrir sér að fara þær leiðir sem Norðmenn hafa stigið heldur fleiri Norðurlandaþjóðir.

Það er því miður þannig að flestar þær áætlanir sem samdar hafa verið hafa ekki skilað nægilega miklu til að sporna við neikvæðri þróun fólksfækkunar. Það sem ég mundi gjarnan vilja sjá er að ríkisstjórnin og við sem erum í meiri hluta mundum sameinast um að fara í þessar róttæku aðgerðir og það fyrir lok kjörtímabilsins. Ég mundi ekki bara vilja sjá að farið yrði í skattaívilnanir til fyrirtækja sem eru reiðubúin til að staðsetja sig á þessum svæðum heldur líka til einstaklinga, eins og Norðmenn hafa gert, og þá hugsanlega með hærri barnabótum til þeirra ungu fjölskyldna sem vilja flytja aftur heim að námi loknu, frestun eða afslátt á greiðslu námslána, eins og Norðmenn hafa gert, til að fá unga fólkið sem farið hefur í burtu til að mennta sig en fær svo ekki vinnu á heimaslóðum þó það gjarnan mundi vilja snúa til baka. Þetta er þekkt víðs vegar um landið.

Annars verð ég að segja alveg eins og er að margt gott er í þessari byggðaáætlun. Fjallað er um bættar samgöngur sem eru eitt af lykilatriðum þess að gera einstök svæði samkeppnishæf og sérstaklega við höfuðborgarsvæðið. Svo fagna ég því sérstaklega að hér komi fram mjög skýrt og skilmerkilega að flugvöllurinn í Reykjavík eigi að vera áfram í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu. Í mínum huga þýðir þetta það að flugvöllurinn á að vera áfram í Vatnsmýrinni vegna þess að það er eini staðurinn sem hann getur verið staðsettur, sem er raunverulega í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu. Við verðum að hafa í huga að stjórnsýslan byggðist einmitt upp á þessu svæði, þ.e. í miðborginni í Reykjavík, út af nálægð við flugvöllinn, það var ekki öfugt. Ég held að það verði að hafa í huga.

Það er líka jákvætt að haldið verði áfram með þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn ákvað að fara í varðandi brothætt byggðarlög. Ég veit að Byggðastofnun hefur haldið gríðarlega vel á því verkefni og ég er þeirrar skoðunar að við ættum frekar að reyna að efla og styrkja Byggðastofnun þannig að hún geti tekið virkari og meiri þátt í því að sporna við fólksfækkun víða. Ég held að sú stofnun sé kannski best til þess fallin að hafa yfirsýnina og til að rannsaka einstakar aðgerðir, rannsaka stöðuna á þeim svæðum sem eiga undir högg að sækja vegna þess að þar geta aðstæður verið mismunandi eins og gengur og gerist.

Hér er líka fjallað um stuðning við fyrirtæki sem standa í nýsköpun, að settir verði fjármunir í einstaka vaxtagreinar. Það er í ætt við þingsályktunartillögu sem ég lagði fram þegar ég tók fyrst sæti á Alþingi á árinu 2007, að veittar yrðu skattaívilnanir til fyrirtækja sem einmitt standa í nýsköpun og þróun. Stigin hafa verið skref í þá áttina sem sýna kannski að norska leiðin sem leggur til svipaða þætti til að styðja hinar dreifðu byggðir landsins er raunhæf og fyrirmyndina skortir ekki.

Hér er líka rætt um stuðning við nýfjárfestingu og atvinnuuppbyggingu og komið er sérstaklega inn á nauðsynlega uppbyggingu innviða vegna iðnaðarsvæðisins á Bakka við Húsavík. Núverandi ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún muni standa vel að uppbyggingu innviða á því svæði. Ég er bjartsýnn á að þegar ESA verður búið að kveða upp sinn úrskurð um að þær ívilnanir sem þar verði veittar stangist ekki á við reglur Evrópuréttar verði hægt að fara á fullu í atvinnuuppbyggingu sem gæti gert það að verkum að Norðausturlandið verði með tíð og tíma að raunverulegu mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Ég held að það sé það landsvæði sem hafi mesta möguleika á uppbyggingu í þá veru. Ég er bjartsýnn á að sú uppbygging geti farið fram og geti hafist vonandi núna fyrir sveitarstjórnarkosningar sem verða eftir þrjá til fjóra mánuði. Jákvæð teikn eru á lofti og eftir því sem ég fæ best vitað sé ég ekkert í vegi fyrir því að ESA staðfesti að þetta sé í góðu standi.

Ég ítreka að ég fagna þessari áætlun. Ég hefði getað fjallað aðeins um (Forseti hringir.) dreifingu opinberra starfa og fagna því að reyna eigi að sporna við fækkun þeirra og fjölga þeim á næstu árum. Það eru margir sem hafa haft áhyggjur af því, en þetta er jákvætt og ég mun styðja það heils hugar.