143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[17:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir mjög málefnalega og góða umræðu. Ég heyri ekki betur en hér sé þverpólitísk samstaða allra flokka um að byggðamál séu mikilvægur málaflokkur. Allir eru sammála um að það sé mikið verk að vinna. Ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, og reyndar fleirum, að það sem hefur verið unnið er margt ágætt og þau verkefni sem hefur verið unnið að á mörgum svæðum hafa skilað sér ágætlega, eins og hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á varðandi byggðakvótann sem er verið að nýta til lengri tíma uppbyggingar á stöðum þar sem menn hafa þurft að berjast gegn fólksfækkun og erfiðleikum í atvinnurekstri. En ýmis önnur svæði eins og Breiðdalsvík og fleiri standa eftir og við þurfum auðvitað að vinna áfram að því að finna lausn á vanda þeirra líka. Verkefnið er gríðarlegt.

Á bls. 12 í plagginu í lið 3.3., um dreifingu opinberra starfa, sem hefur aðeins verið komið inn á í ræðum fjölmargra þingmanna, kemur fram að á árunum 2007–2011 fækkaði opinberum störfum á vegum ríkisins í flestum landshlutum en fjölgaði umtalsvert á höfuðborgarsvæðinu. Störfum fækkaði alls staðar í samfélaginu og mikið í einkageiranum um allt land, en á sama tíma og störfum fjölgaði umtalsvert á höfuðborgarsvæðinu dróst verulega saman á landsbyggðinni sem sýnir kannski í raun að sú stefna sem við höfum haft hefur verið meira í orði en á borði. Það er því verk að vinna.

Einstaka þingmenn beindu spurningum til mín sem ég ætla að reyna að svara. Til að mynda spurði hv. þm. Þórunn Egilsdóttir hvenær íbúar á köldum svæðum gætu búist við fullri jöfnun húshitunarkostnaðar og raforkukostnaðar. Í beinu framhaldi af því frumvarpi sem iðnaðarráðherra flutti hér í gær er áætlað að það taki þrjú ár að ná jöfnun á dreifikostnaðinum og á sama tíma eða innan þess tíma ætlum við að ná að fullu jöfnun á húshitunarkostnaðinum líka. Menn munu sjá það strax á þessu ári og svo stig af stigi.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur að meira þurfi til en það sem nú er lagt til og eins hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að orð séu til alls fyrst. Um er að ræða framkvæmdaáætlun, sérstaklega hvað varðar innviði fjarskipta og jöfnun raforkukostnaðar. Á því sviði ætluðum við okkur strax á næstu tveimur árum að ná stórum áföngum í því verki.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um hvað hefði breyst hjá fjarskiptasjóði, þ.e. markmiðin sem þar eru, þá er á vegum innanríkisráðuneytisins nú þegar unnið að því að breyta viðmiðunum þannig að þau verði háleitari og horfi til lengri tíma. Í fjárlögunum er Jöfnunarsjóður alþjónustu og síðan fjarskiptasjóður — við að tala um 300 millj. kr. á árinu 2014 sem við höfum til þessara verka.

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir spurði jafnframt um námslán og aðrir komu líka inn á það. Það er aðeins minnst á það hér. Hv. þm. Kristján L. Möller velti því fyrir sér hvort nefndinni væri frjálst að fjalla um þessi mál. Ég treysti nefndinni mjög vel til þess að fjalla um þessi mál. Skoðað var hvort við ættum að koma með tillögu um tilraunaverkefni í þessari áætlun um námslán. Það er áhugavert að skoða það nánar. Lagt er til að við notum tímann til að greina betur ákveðna þætti, eins og hvernig við getum tryggt að skynsamlegt sé við íslenskar aðstæður að nýta til að mynda reynslu Norðmanna. Ég held að það sé mjög áhugavert að skoða það.

Þá kom hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir inn á margt sem ég get tekið undir, enda er ég landsbyggðarmaður eins og hún. Það er ekki til fjármagn í allt. Það kom í ljós í síðustu byggðaáætlunum og ýmsu því sem hv. þingmaður nefndi. Það verður auðvitað að byggja á raunverulegum grunni. Nú höfum við hann. Fjárlögin sem við samþykktum fyrir jól eru með afgangi. Við erum með raunverulega fjármuni. Ég tek undir með hv. þingmanni og reyndar öllum sem hér töluðu að við þurfum síðan að vinna að því að fá meira fjármagn inn í þennan málaflokk til að koma fleiru í framkvæmd. Ég treysti á stuðning allra þingmanna til þess sem og að fara vel og vandlega yfir þessa áætlun og í kjölfarið á því munum við hefja vinnu við byggðastefnu og þá næstu byggðaáætlun sem verður vonandi með meiri þunga á framkvæmdir innan ákveðinna málaflokka.

Ég held að meginbreytingin á þessari byggðaáætlun miðað við þær sem á undan hafa komið sé að hún er hnitmiðaðri, færri málaflokkar eru undir til að raunverulegur árangur verði og þá verði mælanlegur árangur af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram. Ég vona að það gangi eftir enda heyri ég ekki annað en að mikill stuðningur sé í þingsalnum.