143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[17:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og lýsa því yfir að mér líst vel á þetta mál. Bæði hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir og hv. þm. Willum Þór Þórsson hafa farið ágætlega yfir röksemdirnar á bak við þessa þingsályktunartillögu. Ég ætla ekki að endurtaka það allt saman, en það er öllum ljós vandinn sem er til kominn vegna hreyfingarleysis. Við höfum sem betur fer mikið af matvælum og má færa rök fyrir því að við séum með ofgnótt af matvælum, sem er tiltölulega nýtt vandamál í mannkynssögunni. Það hefur leitt af sér kyrrsetu, offituvanda og ýmislegt annað. Ég held að allir séu tilbúnir að taka á því verkefni. Þá er það spurningin: Hverjar eru bestu leiðirnar til þess?

Ég hef tröllatrú á því að upplýsingar til neytenda séu forgangsmál í því samhengi. Það má þó alveg færa rök fyrir því að það sé ekki alltaf einfalt og við höfum svo sannarlega séð fullyrðingar frá þeim sem best þekkja til þessara mála, vísindamönnum og öðrum, um óhollustu ýmissa matvæla, en þegar menn skoða málið nánar, rannsaka það betur, kemur í ljós að það er kannski ekki svo klippt og skorið.

Ég ætla ekki að nefna mörg dæmi. Ég man t.d. að dýrafita átti að vera svo óholl að maður mátti helst ekki horfa á hana, hvað þá borða hana, en það hefur eitthvað verið dregið í land varðandi slíkar yfirlýsingar. Sem betur fer erum við alltaf að þróast, við erum alltaf að fá betri upplýsingar. En ég held að það séu gríðarlegir möguleikar í því að fólk verði sem upplýstast um það sem það lætur ofan í sig og ég vil trúa því og finnst ég finna mikla vakningu hjá fólki að fólk vill fá að vita hvaðan maturinn kemur og einnig hvað í honum er. Menn töluðu hér um myndræna framsetningu, en það sem mér fundust vera bestu upplýsingar um matvæli er spjald sem ég held að hafi komið frá Lýðheilsustofnun um sykurmagn í ýmsum matvælum. Það koma alla vega sjálfum mér mjög á óvart að sjá sykurmagnið í gosdrykkjum en þó miklu meira hversu mikið sykurmagn er í mjólkurvörum, en ég ólst upp að þær væru eitt það hollasta sem maður gæti borðað. Það er í sjálfu sér satt og rétt en það á hins vegar ekki við um það þegar menn hafa sett mikið af sykri í þær. Eina leiðin til að við þróum betri vörur er að fólk sé meðvitað um þessa hluti.

Af því að hér eru allir hv. þingmenn komnir með spjaldtölvur þá er enn þá auðveldara að koma upplýsingum áleiðis fyrst menn eru farnir að nýta slíka tækni. Fyrst við erum að ræða þessi mál þá fer það afskaplega mikið í taugarnar á mér að við séum þátttakendur í viðskiptastríði Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og höfum af einhverjum glópaskap dottið inn Evrópusambandsmegin. Okkur kemur það stríð ekkert við en þetta gerir það t.d. að verkum að öll íslensk matvæli þurfa að vera með Evrópusambandsmerkingunum og þá er allt miðað við 100 g. Ég veit ekki af hverju það er, en það er ekkert endilega upplýsandi. Ég veit ekki hvort það er betri merking í Bandaríkjunum, þ.e. það er svona „per skammt“ og svo verður maður að lesa sig til á umbúðunum hvað skammturinn er stór. En í það minnsta er það þannig í mörgum ríkjum Bandaríkjanna að það er skylda að á matseðlinum séu allar upplýsingar um viðkomandi vörur. Ég get sagt það að ég borða miklu meiri mat en ég ætti að borða og gæti borðað enn þá meira ef ég reyndi ekki aðeins að hemja sig. Maður verður að fylgjast aðeins með því og það er mjög þægilegt að gera það þegar maður er með góðar upplýsingar. Ég fagna þess vegna allri einföldun og framsetningu á upplýsingum og ég held að þetta sé gott dæmi um slíkt.

Við þurfum að líta á þessa hluti í víðu samhengi, passa okkur að festa okkur ekki við einhverja hluti sem tengjast þessu ekki, þeir tengjast miklu frekar viðskiptahernaði. Í þessu tilfelli erum við nokkuð föst í viðskiptastríði Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Það eru ekki hagsmunir okkar og allra síst hagsmunir íslenskra neytenda þannig að frumkvæði eins og þetta er af hinu góða. Einföldun á upplýsingum er auðvitað mjög góð en hún kallar hins vegar á að vandað sé til verka. Þetta er ekki svo klippt og skorið, því miður, að það sé annars vegar til hollur matur og hins vegar óhollur matur. Myndin er flóknari. En upplýsingar til fólks og til neytenda í þessu samhengi eru svo sannarlega af hinu góða og ég fagna því að þetta mál sé komið fram. Mér líst vel á það og ég þakka hv. þingmönnum sem hafa staðið fyrir því að leggja það fram og gera það með þessum hætti.