143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:03]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má svo sem segja að auðvitað á okkur að vera sama hvaðan gott kemur en við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og við tökum upp tilskipanir sem snúa að neytendamálum. Meira og minna allt sem snýr að matvælum tökum við upp í gegnum Evrópusambandið hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ástæðan fyrir því að ég horfi kannski frekar jákvætt á Evrópusambandið er að mín reynsla er sú að neytendavernd er meiri í Evrópusambandinu en hefur verið á Íslandi, þ.e. við höfum notið þess að fá þessar tilskipanir sendar, að minnsta kosti á neytendasviðinu. Það sama á kannski ekki við á öðrum sviðum. Ný löggjöf um merkingar á matvælum, sem ég talaði um áðan, mun t.d. hafa í för með sér að ekki má lengur merkja matvæli með natríum heldur verður að nota orðið „salt“. Næringargildisupplýsingar eiga að vera á öllum matvælum. Það verða settar reglur um lágmarksstærð á letri, það megi ekki vera minna en einn eða tveir millimetrar, ég man ekki stærðina. Það vill þannig til að það hefur þjónað okkar hagsmunum að taka upp þessar tilskipanir.

En einmitt vegna þess að við þurfum ekkert að bíða eftir þessum tilskipunum þá eigum við að fylgjast með því hvað er verið að gera annars staðar. Þess vegna nefni ég Bretland sem dæmi. Það sem Bretar eru að gera með þessum umferðarljósamerkingum hefur ekkert með Evrópusambandið að gera. Ástralir eru að gera það sama og Bandaríkjamenn eru að hugsa sinn gang. Það sem er hins vegar öðruvísi í þessu er að við getum ekki skyldað framleiðendur til að gera þetta, nema Evrópusambandið mundi ákveða það, þá mundum við taka upp tilskipunina. Þess vegna þarf þetta að vera valkvætt og því er mikilvægt eins og hefur komið fram að matvælaframleiðendur séu með, stjórnvöld séu áfram um þetta og allir hagsmunahópar.

Við hv. þingmaður verðum kannski seint sammála um Evrópusambandið en svona er þetta. Við tökum allar þessar reglur upp í gegnum tilskipanir Evrópusambandsins.