143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við erum almennt sammála um að þetta snýst um upplýsingar til neytenda og Evrópusambandið þarf ekkert sérstaklega að blandast inn í þá umræðu. Ég nefndi það í andsvari við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að við værum að taka upp mjög mikið af löggjöf Evrópusambandsins varðandi neytendamál og það sem ég þekki snýr að miklu leyti að matvælum, efnavörum og öðru slíku, sem hefur verið til bóta. En ég nefndi einnig að það gætu verið önnur svið þar sem þetta væri ekki til bóta en það er líka vegna þess að við komum í sjálfu sér ekkert að því, við tökum bara upp þessar tilskipanir.

Aðeins varðandi húsgöngu- og fjarsölu, ég þekki það náttúrlega ekki, en um daginn samþykktum við einmitt lagabreytingar þar um, en ég veit þó að lög um húsgöngu- og fjarsölu snúast ekki bara um fólk sem labbar á milli með happdrættismiða eða eitthvað annað. Þetta er notað yfir öll þau viðskipti sem fara fram, hvort sem það er í gegnum síma, í heimahúsi, á netinu eða þar sem seljandi er ekki á sínu lögheimili — ég man ekki nákvæmlega hvað það er kallað. Það er, held ég, misskilningur að þetta snúist að einhverju leyti aðeins um börn sem labba á milli húsa. (Gripið fram í: … fram í umræðunni.) Já, en það sem ég held að gerist er að á einhverjum tímapunkti, eftir 10–20 ár, mun Evrópusambandið og kannski Bandaríkin líka fara í þessar lituðu einföldu merkingar vegna þess að það verður nauðsynlegt til að stemma stigu við þeim vanda sem við horfum á, sem eru lífsstílssjúkdómar sem kosta heilbrigðiskerfið mikið og eru að sumu leyti að sliga heilbrigðiskerfið. Þetta verður framtíðin. Við þurfum í sjálfu sér ekki að bíða eftir að einhverjir aðrir geri þetta. Tökum Breta sem fordæmi og vinnum í þessu hér og nú. En það er mikilvægt að stjórnvöld séu áhugasöm um þetta. Þess vegna þarf málið að fá góða meðferð í nefndinni. Ég treysti á að nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, býst ég við, vinni virkilega að þessu máli. Ég held að við séum öll sammála um að það sé brýnt. Það er líka mikilvægt að við getum horft til Bretlands, við erum þá ekki að finna upp hjólið í þessu. Við fáum einfaldlega einhvern breskan aðila hingað á fund, kynnum okkur þetta og innleiðum það. Þetta er ekki flókið.