143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum komin að lokapunkti. Við erum meira og minna öll sammála. Ég hafði ímyndað mér að það yrði Matvælastofnun sem hefði eftirlitið en ég held að það eigi ekki að þurfa eitthvert stórkostlegt eftirlit. Þetta snýst fyrst og fremst um að framleiðendur noti þessar merkingar alveg eins og þeir eru að nota aðrar merkingar í dag. Ég held við þurfum líka að horfa á það sem sparast. Hvað sparast við það að bæta lýðheilsuna með þessum aðgerðum? Ég er viss um að Bretar hafa líka farið í gegnum þá umræðu. Þess vegna væri fróðlegt að heyra reynslu þeirra af þessum málum. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það verði miklu meiri sparnaður af þessu en tilkostnaður og eftirlitið eigi ekki að vera svo íþyngjandi hvað þetta varðar. En þetta verða þó örugglega rök sem framleiðendur munu halda á lofti að einhverju leyti, að þetta gæti orðið kostnaður. En í Bretlandi sáu þó það margir framleiðendur sér hag í þessu, þ.e. að þeir mundu selja meira með því að nota þessar merkingar, að jafnvel framleiðendur eins og Nestlé og Pepsico, sem eru mjög duglegir í hagsmunabaráttu sinni, hafa látið tilleiðast og sjá sér hag í að nota þetta. Ég held því að þetta sé mál sem verði í raun til hagsbóta fyrir alla.