143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

hækkun skráningargjalda í opinbera háskóla.

[10:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu. Þannig stendur á með innritunargjöld í háskólana að þau eru þannig ákveðin að háskólarnir sjálfir senda til menntamálaráðuneytisins greiningu á innritunarkostnaði, þ.e. kostnaði við innritun nemenda. Hér er því ekki um að ræða skólagjöld heldur á einungis að rukka fyrir innritunarkostnað.

Það hafa opinberu háskólarnir gert, þeir hafa sent til menntamálaráðuneytisins útlistun á því í hverju sá kostnaður felst. Ég tel fyrir mitt leyti að rangt væri að vefengja þær tölur, þetta er sá kostnaður sem sannarlega fellur til vegna innritunarinnar. Því samþykkti ég að þessi gjöld yrðu hækkuð um þá krónutölu sem hv. fyrirspyrjandi nefndi í fyrirspurn sinni.

Þetta er samkvæmt þeim reglum sem gilda um þessi gjöld. Svona á að fara að, ég hefði talið að það væri veigameiri ákvörðun að víkja frá röksemdafærslu skólanna sjálfra hvað þetta varðar. Reyndar er það svo að komið hefur fram hjá háskólunum, a.m.k. einum þeirra ef ég man rétt, tillaga að hærra gjaldi sem var rökstudd. En það var miðað við þá krónutölu sem kom frá stærsta opinbera skólanum, Háskóla Íslands, að þetta væri sú tala sem lögð yrði til grundvallar. Enn og aftur, það var gert með rökstuddum hætti þar sem farið var yfir lið fyrir lið hvaða kostnaður væri hér á ferðinni. Þetta var því ekki tala sem ákveðin var til dæmis í menntamálaráðuneytinu.