143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

læknaskortur.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Umræðan um skort á mannafla í heilbrigðisþjónustu hefur verið viðvarandi og ég skal verða fyrstur manna til að viðurkenna að þær upplýsingar sem ég hef kallað eftir frá mínum sérfræðingum og sérfræðingum úti í samfélaginu líka benda til þess að ekkert fullkomið yfirlit sé til yfir þessa stöðu. Í mikilli umræðu um málefni Landspítalans á síðasta ári, eftir mitt sumar og fram á haust, gerði ég ítarlega tilraun til að nálgast eðlilega og góða tölu um þetta. Það lukkaðist ekki. Þegar ég ræddi við forsvarsmenn Læknafélags Íslands meðal annars viðurkenndu menn einfaldlega að þeir hefðu ekki almennilegt yfirlit yfir þann mannafla innan þeirra vébanda sem er við störf hér á landi.

Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni af skorti á fólki til sérhæfðra starfa á tilteknum fagsviðum í heilbrigðisþjónustunni. Ég minni þó á samkomulag og viljayfirlýsingu sem gerð var af hálfu Landspítalans með ráðuneytinu síðasta haust varðandi lyflækningasvið, af því að það var hér sérstaklega nefnt. Ég veit ekki betur en að starfsemin þar hafi styrkst frá þeim tíma en eftir er að fullnusta ákveðin ákvæði í því samkomulagi sem ég bind vonir við að geti orðið til enn frekari styrkingar.

Ég sat síðast í morgun á reglulegum fundi með forstjóra Landspítalans þar sem við fórum meðal annars yfir þessa stöðu. Að öllu samanlögðu erum við tiltölulega bjartsýnni á stöðuna til dæmis fyrir þetta ár miðað við það ástand sem við glímdum við á síðasta ári og mátti ætla að yrði.