143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

úrbætur í fangelsismálum.

[10:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum málum sem eru auðvitað brýn. Þetta er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni. Þótt við séum ekki endilega að leysa þann vanda sem við stöndum hvað harðast frammi fyrir núna, sem er staðan í fangelsismálum þjóðarinnar, teljum við þetta samt sem áður eitt mikilvægasta framfaraskrefið. Ég er þeirrar skoðunar að eitt mikilvægasta framfaraskrefið sem stigið hefur verið á umliðnum árum og verður stigið sé sú ákvörðun sem var tekin á síðasta kjörtímabili og fest í núgildandi fjárlögum um að halda áfram með byggingu fangelsis á Hólmsheiði. Þar bætast við þau rými sem eru bráðarými og er mikilvægt til að tryggja að önnur fangelsi í landinu nýtist fyrir annað en bráðaúrræði.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefnir um ákveðið og tiltekið húsnæði hefur það ekki verið skoðað með hliðsjón af þessu. Ég árétta líka og ítreka að þrátt fyrir að við getum séð ákveðnar lausnir, það er víða laust húsnæði og við gætum auðvitað spurt okkur hvort það nýtist undir fangelsi, þá eru gerðar mjög ríkar, afgerandi og afdráttarlausar kröfur til húsnæðis sem á að nýta í þessum tilgangi og ekki einfalt að finna slíkt húsnæði. Fyrir utan það er það mjög kostnaðarsamt, menn hafa nefnt húsnæði sem er til staðar og hefði getað komið í staðinn fyrir að byggja á Hólmsheiðinni en það er dýrt að taka húsnæði sem ekki var byggt sem fangelsi og gera það þannig að það geti rúmað þá hluti sem við ætlumst til að séu í fangelsum.

Þessi staður hefur því ekki verið skoðaður og ekki yfirfarinn í þeim skýrslum og úttektum sem ég hef lesið um mögulega nýtingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu undir fangelsi.