143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspurn hv. þingmanns og þá sérstöku umræðu sem hér fer fram.

Hvað varðar upprunaland og merkingar tel ég mjög mikilvægt að neytandi sé upplýstur um uppruna vörunnar og innihald hennar. Um þetta hafa ekki gilt skýrar reglur. Þó eru í gildi upprunareglur um ferskt og frosið nautakjöt, þær voru settar árið 2011 vegna kúariðu.

Í ráðuneytinu er verið að vinna að innleiðingu á ESB-reglum sem eiga að taka gildi í desember nk. Reglugerðin er í sjálfu sér að verða tilbúin. Samkvæmt þeim reglum verður skylt að upprunamerkja ferskt og fryst svínakjöt, kindakjöt, geitakjöt og alifuglakjöt. Á sama tíma verður einnig skylt að merkja uppruna aðalhráefnis vöru ef uppruni þess er annar en vörunnar og uppruni vörunnar er gefinn upp. Ég tek dæmi, ef merking á kjötbollum segir að uppruni sé Ísland en kjötið erlent verður að merkja hver uppruni kjötsins er eða taka fram að hann sé annar en upprunamerking vörunnar segir til um. Um mjólkurvörur munu einnig gilda almennar reglur.

Þó hefur komið fram í umræðunni að í sjálfu sér sé ekkert því til fyrirstöðu að aðilar á markaði og þá allir aðilar, og þá er ég að tala um Samtök verslunar og þjónustu, Bændasamtökin, Samtök iðnaðarins og búgreinafélögin, gætu tekið höndum saman og komið þessum merkingum á. Ég tel að þetta sé stærsta tækifæri innlendrar framleiðslu, að tryggja upprunamerkingu á vörunni. Einnig má nefna að hér í þinginu tekur mál nr. 13, frumvarp um fánamerkingar, sem þingmenn Framsóknarflokksins undir forustu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur hafa lagt fram, á þessu að hluta til.

Varðandi úthlutun tollkvóta og endurskoðun hans hef ég ekki í hyggju að breyta úthlutun tollkvóta frá þeim lögum sem nú eru í gildi að því undanskildu að til meðferðar er í þinginu mál nr. 137, um lítils háttar breytingu á úthlutun tollkvóta. Árið 2012 var gerð viðamikil breyting, samanber lög nr. 160/2012, á búvörulögum og tollalögum, en hún var gerð í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í framhaldi af kvörtun hagsmunaaðila um breytt fyrirkomulag þáverandi ráðherra, Jóns Bjarnasonar, um útreikning á WTO-tollum. Kannski rétt að við fáum aðeins reynslu af þeim lögum áður en við förum í stórkostlegar breytingar.

Varðandi hugsanlegan sveigjanleika og að auka innflutning á hvítu kjöti eru engin sérstök áform um það núna. Ég vil þó benda á að Ísland á í tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur og vil því ekki útiloka að eitthvað verði samið um frekari markaðsaðgang til landsins með þær vörur. Þó er rétt í þessu samhengi að menn taki ríkt tillit til þess að við erum örmarkaður. Það eru fleiri þættir en bara menningarlegir þættir sem gera það að verkum að lönd styrkja landbúnaðarframleiðslu sína, þeir eru ekki síður atvinnulegir og fleiri þættir koma þar við sögu, fæðuöryggi o.s.frv.

Hvort afnema eigi ákveðna þætti og undanskilja mjólkurframleiðslu frá samkeppnislögum þá vil ég vísa til stjórnarsáttmálans en þar er kveðið á um að endurskoða eigi núgildandi búvörusamninga. Í ráðuneytinu er þegar hafinn undirbúningur að þeirri vinnu og geri ég ráð fyrir að sá þáttur löggjafarinnar verði ekki undanskilinn í þeirri umfjöllun. Rétt er að benda á að fyrirkomulagið hefur skilað mikilli hagræðingu sem hefur skilað sér til neytenda og bænda. Í því sambandi er rétt að minna á að matur hefur sjaldan verið ódýrari á Íslandi og mjólkurvörur einna helst. Aðilar vinnumarkaðarins, BSRB, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, hafa bakkað þetta kerfi upp en það er sjálfsagt að taka það til skoðunar þegar við skoðum það í heildinni.

Varðandi aukið gegnsæi í verðmyndun í smávöruverslun með búvörur verð ég að viðurkenna að mér er ekki alveg ljóst hvað þingmaðurinn á við, en ef hann er að spyrja um framlegð verslunarinnar af sölu á einstökum búvörum þá er ég því hlynntur. Í því sambandi vil ég benda á að hægt er að nálgast afurðastöðvaverð fyrir einstakar kjöttegundir á heimasíðu viðkomandi fyrirtækja. Hið sama á við um opinbert heildsöluverð á mjólkurvörum. Gegnsæi í verðmyndun tel ég mjög mikilvægt. Í þessu tilliti vil ég nefna að til dæmis hafa bændur í nágrannalöndum gagnrýnt stórar verslunarkeðjur fyrir það að taka í æ ríkari mæli stærri sneið af verðinu í sínar hendur. Benda má á að hérlendis eru stærstu birgjar stóru verslunarkeðjanna, þar á meðal í innflutningi, í þeirra eigu og þar af leiðandi ekki gegnsætt hvar þeir taka ávinninginn af verðinu sem neytendur greiða að lokum eða þurfa að sætta sig við.

Að lokum hvort ráðherra finnist eðlilegt að stór framleiðandi búvöru bjóði í tollkvóta til að vernda stöðu sína á markaði, þá er alveg umhugsunarefni hvort það fyrirkomulag geti talist eðlilegt. Þetta á þó jafnt við um stóra framleiðendur búvara en ekki síður eins ráðandi smásöluaðila á markaði. Litlir aðilar telja á sér brotið þegar þessir stóru hrifsa til sín stærsta hluta kvótans og stundum í krafti fjárhagslegra yfirburða. Ef hins vegar á að útiloka einn lögaðila umfram annan er umhugsunarvert hvar á að draga (Forseti hringir.) mörkin.