143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er eins nöturlegt og nokkuð getur verið að þeir aðilar sem sérstaklega leggja upp úr því að þeir séu að bjóða holla og góða innlenda framleiðslu standi sig svo ekki gagnvart neytendum þegar þeir í einhverjum tilvikum eru að selja innflutta vöru eða nota innflutt hráefni í sína framleiðslu. Þetta er ekki bara skaðlegt fyrir orðspor íslensks landbúnaðar og matvælaiðnaðar, þetta er algerlega gegn þeirri þróun sem menn hafa verið að vonast til að miðaði eitthvað áfram í sambandi við upprunamerkingar og rekjanleika vöru. Mér er miklu umhugaðra um að þetta sé sett í það samhengi hvernig við viljum að þessir hlutir almennt þróist og séu. Er ekki krafan sú að vörur séu rétt merktar hvað uppruna snertir og að ferlið sé rekjanlegt þannig að menn viti hvað þeir eru að kaupa eða borða?

Þetta má einfaldlega ekki líðast. Með þessu eru menn að skjóta sig harkalega í fótinn og við verðum að vona að menn hafi eitthvað af þessu lært.

Á hinn bóginn held ég að það sé sömuleiðis ekki uppbyggilegt að ræða stefnu Íslands hvað varðar matvælaöryggi, hollustu og heilnæmi og landbúnaðarstefnuna þess vegna út frá einstökum atburðum af þessu tagi. Þar koma svo mörg önnur sjónarmið við sögu sem við þurfum að hyggja að og verulegar breytingar hafa þegar orðið eða eru í farvatninu hvað varðar matvælaframleiðslu og þörf og eftirspurn í heiminum. Ísland þarf að huga að stöðu sinni í þeim efnum sem eitt það land sem er hvað háðast öðrum varðandi það að brauðfæða sig því um helmingur af fæðuþörf þjóðarinnar er innflutningur.

Ég er í þeim hópi sem hefur bundið vonir við að íslensk framleiðsla ætti mikil sóknarfæri og við gætum styrkt okkar stöðu inn í framtíðina með því til dæmis að auka kornrækt, skógrækt, ylrækt og það eru meira að segja mörg svið hefðbundins landbúnaðar þar sem eru sóknarfæri og framleiðslan annar ekki eftirspurn eins og í framleiðslu nautakjöts til dæmis.