143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:22]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að opna þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hans svör og ræðu.

Neytendur og bændur hafa náð vel saman í umræðu undanfarna daga og ár þar sem er vel upplýst hvaðan matvælin eru og íslenskir bændur geta treyst því að ekki sé verið að blekkja neytendur með því að láta búvöru af erlendum uppruna sigla í skjóli innlendrar vöru sem neytendur treysta að sé góð. Það er ekki ný stefna bænda. Árum saman hefur verið óskað eftir því að sett yrði traust umgjörð um slíkar merkingar og þær reglur séu trúverðugar og ekki misnotaðar.

Tollverndin er grundvöllur landbúnaðarstefnu okkar ásamt búvörusamningum. Raði ég í mikilvægisröð tel ég tollverndina vera mikilvægari. Það verður líka að beita henni rétt. Tollverndin á ekki að viðhalda óeðlilegu verðlagi á matvöru, hún er heldur ekki ætluð til þess að þröngva niður kjörum bænda í bjargarleysi. Framkvæmd tollverndarinnar verður að vera lifandi. Ég tel reyndar að tollvernd eigi að vera hluti af búvörusamningum og þannig virkt stýritæki til að ná þeim markmiðum okkar um landbúnaðarstefnu, landbúnaðarstefnu uppbyggingar öflugri sveita og fjölbreyttara atvinnulífs í landinu.

Ég tel líka að búvörusamningar í því formi sem þeir eru nú hafi lifað sinn tíma. Ég vil sjá þessa tvo meginþætti landbúnaðarstefnunnar, tollvernd og búvörusamninga, saman í einum samningi brotið niður á búgreinar, ekki síður til þess að við getum sett okkur ný tækifæri um öflugri sveitir og sterkan íslenskan landbúnað.

Ég minni á að við flytjum inn verulegt magn af búvöru hingað til lands án tollverndar. Vöruskiptajöfnuður búvöru okkar er óhagstæður um 22 milljarða samkvæmt tölum OECD. Afnám tollverndar er engin trygging fyrir lægra verði til neytenda, enda hefur verslunin engu lofað, bara slegið fram staðhæfingu um að verðið muni lækka án þess að færa fyrir því nokkur rök. Verslunin þiggur líka tollvernd þegar hún er í boði, samanber þegar hún kvartar yfir verslunarferðum Íslendinga til útlanda og beitir sér gegn hugmyndum um eflingu póstverslunar.

Það á ekki við lengur, herra forseti, að tala um ofverndaðan íslenskan landbúnað. Staðan er sú að í einstökum búgreinum er tollverndin orðin veik og er vá fyrir dyrum. Ég vil minna á að nú er staðan sú að sauðfjárbændur ná ekki nema 2/3 af heimsmarkaðsverði fyrir afurðir sínar.

Ég vil að lokum nefna hér búgrein sem ég kalla á válista, sem er kartöflurækt. (Forseti hringir.) Uppskerubrestur og langvarandi lágt verð hefur næstum gengið af henni dauðri. Ég skora á hæstv. ráðherra að (Forseti hringir.) veita athygli vanda við kartöflurækt og stöðu kartöflubænda.