143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það segir allt sem segja þarf um ógöngur einokunarkerfisins í íslenskum landbúnaði að menn flytji inn erlendar landbúnaðarafurðir og selji hér undir fölsku flaggi. Það er ástæða til að þakka hv. málshefjanda fyrir að taka málið upp og sömuleiðis að draga það fram að hér er von á evrópskum reglum um upprunamerkingar sem munu að nokkru bæta úr þessu. Um er að ræða eitt af mörgum framfaraskrefum sem við höfum séð í neytendarétti hér á Íslandi eftir að við urðum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er vissulega þörf á því að ekki er að vænta sérstakra framfaraskrefa, hvorki í neytendarétti né í verslunarfrelsi í landbúnaðinum, fyrir tilstuðlan þessarar ríkisstjórnar, en hugsanlega, eins og hæstv. ráðherra upplýsti, mun það nást fram í samningaviðræðum Evrópusambandsins við landið.

Hvað er það sem við þurfum að taka á? Það er auðvitað fjölmargt. En eitt af því er auðvitað enn ein evrópsk réttarbótin, samkeppnisrétturinn. Landbúnaðurinn er undanskilinn samkeppnislögum. Svo óeðlilegir viðskiptahættir tíðkast í landbúnaðinum að sérstaklega þarf að undanskilja hann samkeppnislögum. Ég hef flutt hér í þessum sal tillögu um það að greinin einfaldlega falli undir samkeppnislög og lög um eðlilega viðskiptahætti. Hún hefur verið felld í þessum sal og það er auðvitað verulegt umhugsunarefni.

Það er synd vegna þess að við erum öll sammála um að íslenskur landbúnaður á mikil sóknarfæri. Við erum líka öll sammála um að standa vörð um hefðbundinn íslenskan landbúnað, sauðfjárræktina, mjólkuriðnaðinn. Það er, eins og hv. málshefjandi vekur athygli á, löngu tímabært að til dæmis í hvíta kjötinu aukum við verulega verslunarfrelsi og samkeppni á markaði, vegna þess að sú varðstaða sem staðin hefur verið um þá framleiðslu er auðvitað varðstaða um örfá iðnfyrirtæki, alla jafna í eigu íslenskra fjármálastofnana, og þau fara á hausinn með reglulegu millibili eins og við þekkjum, en ekki varðstaða um hið hefðbundna (Forseti hringir.) íslenska fjölskyldufólk.