143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum í einni ræðu, líkt og virðulegur forseti hefur gert grein fyrir, og þakka fyrir heimild forseta til að gera það, enda eru þessi mál svo tengd og verða sjálfsagt til sameiginlegrar umfjöllunar á vettvangi nefndar og þings í framhaldinu.

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Samhliða því mun ég mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum. Þar sem frumvörpin tvö tengjast mikið, líkt og ég hef sagt, mun ég fara yfir þau samtímis þó að ég aðgreini þau auðvitað í umræðunni.

Eins og þingheimur þekkir, og einhverjir mundu segja þekkir of vel, hefur verið unnið að heildarendurskipulagningu og framtíðarstefnumótun í málefnum sýslumanna og lögregluembætta um margra ára skeið og í nánu samstarfi við sýslumenn og aðra hagsmunaaðila. Frumvörpin fela því í sér umtalsverða breytingu, umbætur í þjónustu að mínu mati, verulega fækkun stofnana og vonandi og það sem mestu skiptir betri þjónustu við almenning um allt land og aukin tækifæri til þess að færa þjónustu frá miðlægum stofnunum í Reykjavík til annarra stofnana víða um land.

Ég ætla að byrja á því, virðulegur forseti, að ræða hið svokallaða sýslumannsfrumvarp, frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, en þau lög leggja grunn að stjórnsýslu og skipulagi sýslumannsembætta landsins.

Frumvarpið felur í sér tvær meginbreytingar frá gildandi lögum. Annars vegar verður ákæruvald og löggæsla aðskilin frá embættum sýslumanna og færð til sjálfstæðra embætta lögreglustjóra með sama hætti og þegar hefur verið gert og við þekkjum héðan frá höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Hins vegar verður embættum sýslumanna fækkað úr 24 í níu. Við það verða 22 núverandi umdæmi sýslumanna sameinuð í sjö ný umdæmi; Vesturland, Vestfirði, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og höfuðborgarsvæðið. Núverandi umdæmi sýslumannsins á Suðurnesjum verður óbreytt og embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum verður lítið breytt samkvæmt því frumvarpi sem nú liggur fyrir.

Virðulegur forseti. Ég vil hafa sagt það hér til áréttingar að sýslumannsembættin eru að sjálfsögðu gamalgrónar og afar traustar stjórnsýslu- og þjónustustofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi. Núverandi umdæmaskipan sýslumanna hefur um langa tíð verið óbreytt en á síðustu rúmum tveimur áratugum hafa hins vegar orðið verulegar breytingar á starfsemi sýslumanna, fyrst með aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdarvalds árið 1992 og síðar með breytingum á réttarfarslögum.

Frumvarpið sem hér er lagt fram felur í sér sem fyrr segir sameiningu en auðvitað um leið talsverða fækkun sýslumannsembætta í þeim tilgangi að auka og bæta þjónustu ríkisins í héraði. Einhverjum gæti þótt, virðulegur forseti, að hér væri á ferðinni eitthvað sem ekki færi saman en eftir langa og ítarlega skoðun í innanríkisráðuneytinu og fyrrverandi dómsmálaráðuneyti og víðar í stjórnkerfinu og með aðkomu sýslumanna um allt land er það mat flestra að þessi þróun sé einmitt til þess að bæta þjónustu á hverjum stað og tryggja það að embættin séu reiðubúin að taka að sér stærri og mikilvægari verkefni, þ.e. önnur verkefni en hafa endilega verið á þeim stöðum til þessa. Þess vegna er það svo ánægjulegt við þetta að til lengri tíma verður hægt að færa verkefni úr ráðuneytum, úr öðrum stofnunum til sýslumannsembætta og efla þannig þjónustu á landsbyggðinni enn frekar.

Stjórnsýsluumdæmi sýslumanna eru 24 talsins. Embættin eru misstór landfræðilega, spanna allt frá 9 þúsund ferkílómetrum upp í 18 þúsund og hið sama má segja um þann fólksfjölda sem þau þjóna. Alls starfa um 300 manns hjá öllum sýslumannsembættum landsins í um 280 stöðugildum. Eins og gefur að skilja eru stöðugildin mismörg meðal embætta, allt frá þremur upp í fimmtíu.

Virðulegur forseti. Helstu forsendur sem liggja til grundvallar þeirri endurskoðun sem þetta frumvarp felur í sér, þ.e. frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, eru í fyrsta lagi að gera fyrirhugaðar breytingar á skipan löggæslumála utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Það er óhjákvæmilegt miðað við þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum. Við þá breytingu að ákæruvald og löggæsla verði skilin frá embættum sýslumanna dragast saman verkefni hjá þeim 13 sýslumannsembættum sem fara nú með löggæslumál, og með þessu verður í raun algjör gjörbreyting á starfsemi þeirra.

Í öðru lagi er það svo að byggðaþróun og bættar samgöngur undanfarinna ára kalla á þessa endurskoðun og gera hana nauðsynlega. Núverandi umdæmaskipan hefur verið óbreytt um langa hríð og augljóst að forsendur hennar hafa breyst í veigamiklum atriðum. Má til dæmis nefna verulegar breytingar í samgöngum, eins og ég nefndi, tilkomu jarðganga og betri vegi sem auðveldað hafa samgöngur og stytt vegalengdir innan landshluta.

Í þriðja lagi skiptir miklu að öll þróun á sviði sveitarstjórnarmála hefur verið í þá átt að fækka sveitarfélögum í landinu, þ.e. vinna með stærri einingar en áður. Sveitarfélög hafa verið sameinuð og þau hafa verið gerð að öflugri stjórnsýslueiningum. Þegar sýslunefndir voru lagðar niður 1986 voru sveitarfélög hér á landi yfir 200 talsins en eru í dag 74. Því er eðlilegt er að stjórnsýsla ríkisins í héraði fylgi þeirri þróun enda eiga sömu sjónarmið við í flestum tilfellum.

Í fjórða lagi hefur orðið mikil breyting, sem við öll þekkjum, á allri samskiptatækni. Rafræn stjórnsýsla er í auknum mæli að ryðja sér til rúms sem gerir það að verkum að staðsetning sýslumanns er ekki höfuðatriði heldur fyrirkomulag og inntak þjónustunnar. Má nefna í því sambandi að unnið hefur verið að mótun og innleiðingu rafræns þinglýsingarkerfis og mikil áhersla lögð á að bæta og þróa öll starfs- og upplýsingakerfi þannig að þau mæti sem best þörfum rafrænnar stjórnsýslu og upplýsingamála og feli um leið í sér ákveðna gagnvirkni.

Í fimmta lagi, virðulegur forseti, hafa alls staðar í rekstri hins opinbera verið gerðar kröfur um hagræðingu og þar geta sýslumannsembættin og hafa sannarlega ekki verið undanskilin. Á síðustu árum hafa heildarfjárveitingar til embættanna lækkað að raungildi og er óhjákvæmilegt að bregðast við því með hagræðingu og skipulagsbreytingum um leið og leitast er við að vernda þá grunnþjónustu og meginstarfsemi sem sýslumönnum er ætlað að sinna og munu áfram sinna.

Í sjötta lagi má segja að hugmyndin með þeirri tillögu sem lögð er fram í frumvarpinu um fækkun og stækkun embætta, eins og ég hef áréttað hér á undan, sé að efla embættin bæði faglega og fjárhagslega og gera þau betur í stakk búin til þess að sinna nýjum verkefnum sem þeim geta verið falin. Minnstu embættin eru, eins og við öll þekkjum, tæplega nógu sterk til að halda uppi nægilega öflugri þjónustu í samanburði við stærri embættin og þess er vænst að stækkun og sameining embætta leiði til þess að þau verði öflugri þjónustueiningar. Almennt má gera ráð fyrir því að sérhæfing og afköst starfsmanna aukist við stærri embætti og að stærri og færri embætti muni tryggja betur samræmt verklag.

Með vísan til þessara forsendna, virðulegur forseti, hafa þrjú meginmarkmið verið höfð að leiðarljósi við þá endurskoðun sem frumvarpið felur í sér. Segja má að það séu sömu leiðarljós og hafa verið viðhöfð í þessum málum í tíð núverandi ríkisstjórnar og eins í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, og að okkur hefur í raun og veru auðnast það í þessu stóra verkefni að stíga með svipuðum hætti til jarðar í því og ég held að allir séu sammála um að þetta sé mikilvægt framfaraskref.

Ef maður rammar inn þá umræðu felur þessi breyting í sér þau þrjú meginmarkmið að þjónusta við borgarana úti um allt land verði eins góð og kostur er, að rekstur embættanna verði eins hagkvæmur og kostur er og að stjórnsýsla sýslumannsembættanna verði efld þannig að þau verði betur í stakk búin til að taka að sér aukin verkefni. Þetta eru lykilþættirnir.

Sem fyrr segir, virðulegur forseti, gerir frumvarpið ráð fyrir að embættum sýslumanna verði fækkað úr 24 í níu. Þau embætti sem nú eru starfandi sameinast í hinum nýju embættum utan embættum sýslumanna í Reykjanesbæ og í Vestmannaeyjum. Embætti sýslumannsins í Reykjanesbæ breytist ekki að öðru leyti en því að það mun framvegis bera heitið Embætti sýslumanns á Suðurnesjum, en í Vestmannaeyjum verður lögreglan skilin frá embætti sýslumanns og færð undir nýtt embætti lögreglustjóra á Suðurlandi líkt og liggur fyrir í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Ég geri fastlega ráð fyrir því, virðulegur forseti, að þessi tilhögun hvað varðar Vestmannaeyjar verði rædd nokkuð á vettvangi nefndarinnar, enda hafa Vestmannaeyingar lýst því yfir að þeir telja að það þurfi aðra tilhögun á þeirra svæði. Ég vonast til þess og treysti því að nefndin komist að góðri niðurstöðu í því eins og öðru er varðar þetta frumvarp.

Samkvæmt frumvarpinu verða umdæmamörk embætta sýslumanna því með sama hætti og nú eru ákveðin í reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og sýslumenn, með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu. Gert er ráð fyrir að ný umdæmamörk sýslumannsembætta verði að meginstefnu til hin sömu og ný umdæmamörk lögregluumdæma en Vestmannaeyjar verði þó áfram sérstakt umdæmi sýslumanns. Kveðið verður á um það í reglugerð hvar aðalskrifstofa sýslumanns í hverju umdæmi verður staðsett og jafnframt að samráð verði haft við sýslumann um staðsetningu annarra sýsluskrifstofa umdæmisins og hvaða þjónusta þar verði veitt. Jafnframt verður horft til þess hvernig skipulagi lögreglu innan umdæmisins verði háttað.

Það nýmæli er í frumvarpinu að til viðbótar því gjaldi sem sýslumönnum er heimilt að innheimta samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs — og ég vil sérstaklega láta þess getið, virðulegur forseti, að þetta er líka afsprengi af umræðu sem verið hefur talsverð á umliðnum missirum — verði þeim gert heimilt að taka gjald samkvæmt gjaldskrá sem samsvarar kostnaði vegna verka sem framkvæmd eru utan hefðbundins vinnutíma og starfsstöðva þeirra og lög um aukatekjur ríkissjóðs ná ekki til.

Sem dæmi um þetta má nefna að fallist sýslumaður á að gefa hjón saman utan starfsstöðvar sinnar eða utan afgreiðslutíma skrifstofunnar verður að gera ráð fyrir því að sá sem um það biður greiði sérstakt gjald sem sýslumaður geti innheimt á grundvelli gjaldskrár. Þetta á einnig við um aðra þætti sem ég geri ráð fyrir að þingheimur þekki nokkuð vel til.

Frumvarpið kveður á um að hið nýja skipulag sem hér er kynnt taki gildi þann 1. janúar árið 2015. Fram að þeim tíma gefst færi á að undirbúa innra skipulag hinna nýju embætta, þjónustu þeirra og starfsemi að öðru leyti. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hægt sé að stíga ákveðin skref í átt að hinu nýja skipulagi fyrr, t.d. með sameiningu embættisverka tveggja eða fleiri embætta þar sem sami sýslumaður gegnir embættum eða með sameiningu sé slík leið fær.

Nokkuð hefur verið rætt um það, virðulegur forseti, að horfa þurfi til þess við innleiðingartímann að sýslumannsembættin um allt land þykja ekki nægilega vel búin tæknilega þannig að það gæti verið eitthvað sem mundi valda því að rýna þyrfti sérstaklega tímaviðmiðin og innleiðingartímann.

Svo vikið sé að starfsmannamálum er tengjast þessu frumvarpi munu starfandi sýslumenn samkvæmt frumvarpinu njóta forgangs til skipunar í ný embætti. Hið sama gildir um starfsmenn þeirra embætta sem lögð verða niður, þeim verða boðin störf ýmist hjá hinum nýju embættum sýslumanna, lögregluembættum eða annars staðar á umsýslusviði ráðuneytisins. Hér er því ekki gert ráð fyrir uppsögnum starfsmanna þrátt fyrir hagræðingu í rekstri. Það er mikilvægt að þetta komi fram og einnig er mikilvægt að taka fram að á umliðnum árum, sérstaklega síðustu þremur til fjórum árum þegar umræðan um þessar breytingar hefur verið í gangi, hafa skipanir sýslumanna nokkuð tekið mið af þeirri umræðu og undirbúningi frumvarpsins þannig að sumir sýslumenn, eins og þingheimur þekkir, gegna embættum víðar en á einum stað.

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í upphafi mæli ég einnig fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, sem liggur sömuleiðis frammi, sem lýtur líkt og fyrra frumvarp að mestu leyti að sameiningu og um leið stækkun lögregluumdæma.

Frumvarpið felur um leið í sér, líkt og áður var nefnt um frumvarpið er tengist sýslumönnunum, aðskilnað löggæslu frá starfsemi sýslumannsembætta en einnig hæfisskilyrði þeirra er starfa innan lögreglunnar auk annarra breytinga á lögreglulögum. Frumvarpið tekur tillit til þess að kröfur til löggæslu hafa aukist verulega á undanförnum árum og er mikilvægt að lögreglustjóri á hverjum stað geti óskiptur sinnt verkefnum lögreglustjóra til að standa undir þeirri ábyrgð sem hann ber lögum samkvæmt.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að lögregluumdæmum verði fækkað úr 15 í átta. Þau verði óbreytt á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, líkt og áður var nefnt vegna fyrri breytinga, en ný embætti verði á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi.

Líkt og þingheimur þekkir hafa umfangsmiklar breytingar orðið á skipulagi löggæslunnar á undanförnum áratugum. Lögregluembættum var árið 2007 fækkað úr 25 í 15 og árangurinn af þeim skipulagsbreytingum var metinn góður af nefnd þáverandi dómsmálaráðherra sem skilaði skýrslu um skipulagsbreytingarnar árið 2008. Nefndin benti þó á að breytingarnar hafi ekki verið nægilega róttækar til þess að tryggja sem besta nýtingu mannafla innan lögreglunnar alls staðar á landinu. Sum lögreglulið væru enn of fámenn, hlutfall stjórnenda of hátt og markmið um sérstakar rannsóknarheimildir hefðu ekki fyllilega gengið eftir. Var það mat þeirrar nefndar að meiri stækkun lögregluembætta gæti enn aukið slagkraft þessara verkefna og væri mikilvæg til þess að tryggja eins góða og öfluga löggæslu og við viljum hafa í þessu landi.

Í ljósi góðrar reynslu af fækkun lögregluumdæma var því ákveðið árið 2009 að fara yfir stofnanauppbyggingu innan lögreglunnar ásamt umdæma- og verkefnaskiptingu. Slík endurskoðun þótti brýn í ljósi erfiðra aðstæðna í fjármálum ríkisins þar sem leita þurfti leiða til að tryggja að þeir fjármunir sem veittir væru til löggæslu nýttust sem allra best. Meginmarkmiðið með fækkun lögregluembætta er því ekki síst það, og brýnt að hafa það í huga, að komist verði hjá því að vegið verði að grunnþjónustu lögreglunnar. Það er gert með því að leita skynsamlegra og góðra leiða til að hagræða frekar en að skera niður í þjónustu við almenning. Með þeirri breytingu sem hér er kynnt er stefnt að því að til verði öflug lögreglulið um land allt sem njóti styrks af stærri liðsheild með færri stjórnendum, skýrari verkaskiptingu og verði þannig hagkvæmari rekstrareiningar til lengri tíma litið.

Í stað þess að lögbinda umdæmismörk verður ráðherra veitt heimild, samkvæmt þessu frumvarpi, til að afmarka þau nánar í reglugerð, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Rökin fyrir því eru að fjöldi sveitarfélaga í landinu hefur tekið breytingum undanfarin ár. Því gæti verið nauðsynlegt að hnika til umdæmum, t.d. ef kemur til frekari sameining sveitarfélaga.

Þá skal ákveðið í reglugerð hvar aðalstöð lögreglustjóra skuli vera staðsett. Tækniframfarir, bættur búnaður lögreglu, ekki síst fjarskiptabúnaður, og síaukin áhersla á sýnileika löggæslu stuðlar að því að starfsemi lögreglunnar innan umdæmisins sé skipulögð með markvissum hætti þannig að löggæslu gæti sem víðast í umdæminu. Það verður þannig hlutverk lögreglustjóra á hverjum stað að skipuleggja starfsemi lögregluliðanna og verður það jafnframt ákvörðun lögreglustjóra hvaða starfslið hefur aðsetur á aðalstöð og hvaða starfslið hefur aðsetur á öðrum varðstöðvum.

Það er lagt til, líkt og í fyrra frumvarpi, að umdæmabreytingarnar taki gildi 1. janúar árið 2015. Einhverjir mundu telja, og það er rétt að það komi fram, virðulegur forseti, að innleiðingarferlið hvað varðar lögregluumdæmin væri að mörgu leyti einfaldara sökum forsögu og aðstæðna en sýslumannsembættin, en hér er lagt til að þetta fari saman hönd í hönd.

Virðulegi forseti. Samhliða fækkun lögregluumdæma er lagt til að ákvæði um sérstakar rannsóknardeildir sem starfræktar hafa verið hingað til í sjö af 15 lögregluumdæmum verði felldar niður, enda er það talið óþarft þar sem lögreglurannsóknir munu framvegis samþættast almennu lögreglustarfi í hinum nýju umdæmum. Lögregluembættin eru betur í stakk búin vegna þeirrar stækkunar sem hér er lögð til til að takast á við rannsókn sakamála innan síns umdæmis með skilvirkum hætti og um leið og þau koma upp. Er við það miðað að lögregluliðin vinni saman að rannsóknum mála svo sem tilefni er til á grundvelli reglna sem ráðherra setur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

Þá er mælt fyrir um að fella á brott þá heimild að koma á fót greiningardeild er leggi mat á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi í einstökum lögregluumdæmum, enda hvorki talið hagfellt né hagkvæmt að hafa fleiri en eina greiningardeild innan lögreglunnar. Þess utan hefur þessi heimild aldrei verið notuð.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um hæfisskilyrði ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra, aðstoðarlögreglustjóra og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins. Rétt og eðlilegt þykir að kveðið sé á um hæfisskilyrði ofangreindra í lögreglulögum. Þá er gerð sú tillaga að lögreglustjóri skipi alla lögreglumenn nema yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna, þeir skuli skipaðir af embætti ríkislögreglustjóra. Þá mun sérstakur saksóknari geta með sama hætti skipað lögreglumenn við embætti sitt.

Rökin fyrir því, virðulegur forseti, að færa ekki allar skipanir til lögreglustjóra í einu lagi eru annars vegar þau að heppilegra sé að gera breytingar að þessu leyti í áföngum og hins vegar það sjónarmið að mikilvægt sé að haldið sé á skipunarmálum stjórnenda embættanna með samræmdum og tryggum hætti eftir að hin nýju sameinuðu embætti taki til starfa.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um það nýmæli að lögreglumenn og aðrir sem starfa innan lögreglunnar skuli ekki hafa gerst sekir um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem rýrt getur það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Sambærilegar kröfur eru nú gerðar til hæstaréttar- og héraðsdómara, samanber lög um dómstóla.

Það skal tekið fram að samhliða framlagningu frumvarps þessa er hafin á vegum ráðuneytisins, í náinni samvinnu við starfsmenn og hagsmunasamtök innan lögreglunnar, mjög umfangsmikið umbótaverkefni sem ætlað er að styðja við eflingu lögreglunnar með ýmsum hætti, svo sem um skilgreiningu á grunnþjónustu, skiptingu fjárveitinga og aukið rekstraröryggi og ekki síst framtíðarsýn lögreglunnar og framtíðarsýn samfélagsins á grundvelli skýrrar stefnumótunar um það hvernig lögreglumálum og öryggi almennings í breiðum og víðum skilningi skuli fyrir komið til framtíðar. Það er mikilvægt og stórt verkefni sem hefur verið í vinnslu í nokkur ár innan ráðuneytisins og innan stjórnkerfisins alls.

Það er sérstakt markmið núverandi ríkisstjórnar að efla löggæslu í landinu og tryggja að almenningur telji að öryggi hans sé tryggt í því samhengi. Ég er mjög þakklát fyrir það hvernig þingheimur hefur tekið í þá viðleitni mína sem innanríkisráðherra að tryggja það að við getum boðið almenningi um allt land, sérstaklega í dreifðum byggðum, þá tilfinningu, þá upplifun og sannarlega fært þá tilfinningu til verka að hér sé þannig unnið að málum að öryggi sé tryggt. Það er einungis gert í samræmi við þá fínu vinnu sem unnin var í tíð síðustu ríkisstjórnar, lögð fram í mars á síðasta ári, þar sem var lögð fram áætlun um hvernig væri hægt að efla almannaöryggi og efla starfsemi lögreglunnar. Við vinnum eftir þeirri áætlun og í samræmi við þá þverpólitísku vinnu.

Í því samhengi vil ég nýta tækifærið og upplýsa að ég hef þegar fengið til skoðunar og til afhendingar tillögur þverpólitískrar þingmannanefndar sem undir forustu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar hefur verið í mikilli vinnu á umliðnum mánuðum og vikum við að útfæra það sem samþykkt var af þingheimi, um að veita 500 millj. kr. viðbótarframlag til löggæslu í landinu, sérstaklega til eflingar lögregluliðum á hverjum stað og til fjölgunar í lögregluliðum sem við höfum og til fjölgunar á lögreglumönnum og vonandi lögreglukonum.

Sú nefnd skilaði á þriðjudaginn til ráðherra tillögum um dreifingu á þessum 500 milljónum og ég er mjög þakklát fyrir þá góðu og miklu vinnu. Ég hvet þingheim til að kynna sér þær tillögur, ég veit að þær hafa verið kynntar í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem farið var yfir málið á fundi nefndarinnar í morgun. Ég ætla svo sem ekki, virðulegur forseti, að fara yfir það í smáatriðum en get þó upplýst að ég á von á því að samþykkja óbreyttar þær tillögur sem lagðar hafa verið fram enda sé ég ekki ástæðu til annars, eins skynsamlega og þær eru fram bornar og skipulega uppbyggðar. Þær fela í sér að 1. mars næstkomandi verður hægt að ráða 50 nýja lögreglumenn og vonandi lögreglukonur til starfa um allt land.

Þessi fjölgun er að mestu leyti utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við umrædda skýrslu. Það að við séum að ná þeim árangri í þessari þverpólitísku vinnu að ná sátt um að tryggja 50 lögreglumenn til viðbótar í löggæslu og öryggisþætti er varða almannaþjónustu um landið, og að það takist á þessu ári, er að mínu mati risastórt skref til að auka öryggi almennings og tryggja að þessir þættir séu eins vel úr garði gerðir og við ráðum við við núverandi aðstæður. Þetta er því mikið fagnaðarefni og ég vil nota tækifærið og þakka öllum þingflokkum fyrir aðkomu þeirra að málinu og þá miklu samstöðu sem náðist um þessar tillögur sem fela í sér að um 50 nýir lögreglumenn taka til starfa á þessu ári. Tillögurnar fela einnig í sér eflingu á tækjum, búnaði og þjálfun lögreglumanna. Ég tel að þessu fjármagni sé vel ráðstafað miðað við tillögur þingmannahópsins og vona innilega að almenningur muni finna fyrir auknu öryggi um land allt.

Í framhaldi af þeirri vinnu mun þessi þverpólitíski þingmannahópur áfram vera til ráðgjafar fyrir innanríkisráðherra og fyrir innanríkisráðuneytið og lögreglumálin um allt land og koma að því. Eins og ég sagði áðan munum við halda áfram þeirri vinnu og í framhaldi tryggja það að við mörkum okkur skýra og afdráttarlausa sýn um eflingu löggæslunnar í landinu. Það mun ekki aðeins taka mið af þessu viðbótarframlagi heldur einnig af hugmyndum okkar um hvernig við getum gert enn betur og tryggt að þær breytingar sem felast í því frumvarpi sem við ræðum hér nýtist sem best og eins og við viljum öll.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpanna tveggja og legg til að þeim verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr. Ég vona innilega að ég eigi gott samstarf við alla þingmenn um þessi mál. Ég vil einnig upplýsa þingheim um það að ég mun ásamt fulltrúum úr nefndinni fara til fundar við landshlutasamtök og sveitarfélög víða um land til að ræða þessar breytingar og tryggja að þær fari þannig fram að þær séu sem mest í samræmi við væntingar þeirra sem búa á staðnum. Við munum því líka gefa okkur tíma í að kynna almenningi breytingarnar eins vel og mögulegt er vegna þess að það er mikilvægt fyrir almenning að við mætum þeim með jákvæðni og bjartsýni, fullviss um að þetta muni tryggja öflugri og betri þjónustu við almenning um allt land.