143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsöguna í þessu máli. Hér er verið að endurflytja mál, að einhverju leyti uppfærð og endurskoðuð. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða frumvörpin, einfaldlega vegna þess að ég fæ tækifæri til þess í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, en fagna því sem hæstv. ráðherra sagði í lokin að þetta muni fara í góða kynningu út um landið, bæði hjá fagfólki og hjá þeim sem þetta fjallar um, sem eru embættin úti á landi, en einnig hjá sveitarfélögum.

Hæstv. ráðherra gerði grein fyrir hinni jákvæðu viðbót hvað varðar löggæslu á landsbyggðinni í dag, verið er að gera tillögu þar um 50 lögreglumenn. Ég geri mér grein fyrir því að sú tillaga hefur ekki verið lögð fyrir ríkisstjórnina, aðeins lítillega verið kynnt í nefndinni, en ég var því miður ekki á þeim fundi.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra, bara til að grípa tækifærið, hvort sú viðbót sem kom á síðasta ári vegna kynbundins ofbeldis — þar var bætt inn í löggæsluna — hvort ekki sé alveg öruggt að hún verður áfram sem varanlegur hluti af löggæslunni og dómskerfinu. Bara svona til að einfalda mér lesturinn og skoðunina.