143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefnir um sérstöðu hælisleitenda. Það er mjög klár og skýr sérstaða vegna þess alþjóðlega lagaramma sem í kringum þau mál er og við verðum að tryggja að við vinnum þau með eðlilegum hætti.

Öll þessi mál eru erfið, þau eru viðkvæm, þau eru persónuleg og það tekur á að vinna með þau fyrir alla sem að þeim koma. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt og ég veit og treysti því að við höfum þann þroska, íslenskt samfélag að ræða þessi mál án þess að gera það með mjög öfgafullum hætti í aðra hvora áttina. Málefni innflytjenda, málefni hælisleitenda, málefni flóttafólks eru erfið mál vegna þess að þau eru persónuleg og viðkvæm og öfgarnar í aðra hvora átt eru aldrei til góða. Ég hvet okkur til að ræða þau málefnalega, ekki í upphrópunarstíl, fara faglega yfir þau, tryggja að þau séu ekki í pólitískum farvegi og tryggja að það gerist ekki á Íslandi eins og hefur því miður gerst í sumum samfélögum að þessi mál verði eldfim og erfið. Þau eiga ekki að þurfa að vera það, ef við nálgumst þau út frá þeim reglum sem við búum við, því alþjóðlega regluverkið sem við höfum skuldbindur okkur til að forgangsraða í þágu ákveðinna aðila þegar kemur að hælisleitendum og að forgangsraða með umburðarlyndið að sjónarmiði, líka þegar um er að ræða innflytjendur sem ég ítreka að eru ekki hælisleitendur. Þegar við tölum um innflytjendur sem hafa áhuga á að setjast hér að, færa inn í íslenskt samfélag ákveðinn auð, ákveðna fjölbreytni eigum við ekki að taka því eins og ógn heldur líta á það sem tækifæri, tækifæri sem það er. Ég vonast til þess og veit að við höfum burði og þroska til að nálgast verkefnið þannig.