143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Helstu athugasemdir sem við höfum fengið vegna afgreiðslu okkar er lýtur að þessum málum er of löng málsmeðferð. Það er heilt yfir gagnrýnin sem við stöndum frammi fyrir og það er í samræmi við það sem ég sagði áðan og er auðvitað ekki boðlegt, að hvorki þeir sem eiga réttinn né þeir sem eiga hann ekki fái ekki slíkt svar. Það hefur verið stærsta gagnrýnin, til að halda henni til haga.

Hvað varðar fölsuðu skilríkin og sérstaka þætti er lúta að þeim hópum hefur verið og var hluti af þeirri heildarendurskoðun útlendingalaga sem var í gangi af hálfu fyrrverandi innanríkisráðherra — og ég ákvað, eins og ég hef upplýst þingheim um áður, að fá lengri tíma og aukið rými til að fara yfir þau eftir að ég kom inn í ráðuneytið vegna þeirra breytinga sem við töldum að þyrfti að fara í strax vegna gagnrýninnar um málsmeðferðina — að fara sérstaklega yfir það sem hv. þingmaður nefndi. Ég get því fullvissað hv. þingmann um að málið er í mikilli skoðun, hefur verið rætt af fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, og þeir hafa komið til fundar í ráðuneytinu, og er hluti af þeirri vinnu sem ég nefndi að væri í gangi í ráðuneytinu. Einnig er til skoðunar hvort hægt er að fara inn í það verkefni með einhverjum hætti gegnum reglugerð. Þetta get ég upplýst þingheim um betur þegar þeirri vinnu lýkur, eins og ég sagði áðan, í lok febrúar og nákvæmlega hvaða skref við þurfum að taka næst.

Hvað varðar málsmeðferðarhraðann erum við í þeirri vinnu allri saman að miða við í orði en það er kannski erfiðara að gera það í frumvarpinu. Við erum að vinna út frá þeirri hugsun sem er í Noregi um að viðkomandi fái svar um hvort hann eigi rétt á umsókn um pólitískt hæli eða ekki innan 48 tíma. Það er hugsunin á bak við sérstaka kæruleið og að fullu starfandi og stöðugt starfandi teymi. Það gengur út á að viðkomandi fái svar um hvort hann eigi ekki rétt á pólitísku hæli og eigi samkvæmt Dyflinnar-samningnum að fara annað s o.s.frv. eða eigi fara í málsmeðferðina. Það þýðir hins vegar ekki að viðkomandi fái já innan þess tíma heldur tekur endanlegt jáyrði lengri tíma.