143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hún vísar hér til heildarendurskoðunarvinnunnar og að þar verði tekin afstaða til þeirra mikilvægu spurninga sem er staða þeirra hælisleitenda sem koma með fölsuð skilríki til landsins. Mig langar að leita eftir afstöðu ráðherrans til þess máls sérstaklega og þá kannski líka þeirrar hugmyndar sem raunar kom fram í frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þar sem gert var ráð fyrir að leiða í lög að taki meðferð máls lengri tíma en 18 mánuði skuli viðkomandi umsækjandi eiga rétt á að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum þótt niðurstaðan verði á endanum neikvæð, að því gefnu að tafirnar séu á ábyrgð stjórnvalda en ekki umsækjandans sjálfs.

Þetta eru ákveðin mannúðarsjónarmið sem eru þarna undir og það má segja að þá snúist sú nálgun um að hagsmunir hælisleitandans séu svo ríkir að ekki verði við það unað að hann verði dreginn um svar eða niðurstöðu í sínu máli svo lengi öðruvísi en að lagabókstafurinn eða löggjafinn í raun og veru grípi inn í með þeim hætti að dvalarleyfið sé einfaldlega í hendi eftir þann tíma. Þetta er róttæk nálgun en ég hefði áhuga á því að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til að skoða þau sjónarmið líka. Auðvitað var þetta í frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra og þá geri ég ráð fyrir að þetta sé undir í skoðun þeirrar nefndar sem hæstv. ráðherra nefndi, en það væri áhugavert að heyra hvort ráðherrann hefur mótaða afstöðu til þessara þátta.