143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef fullan skilning á því að hv. þm. Árni Páll Árnason vilji viðhalda sem mestri umræðu um það mál sem flokkur hans berst fyrir og hefur barist fyrir frá upphafi, raunar frá stofnfundi ef ég man rétt fyrir um það bil 15 árum. Þá þegar ákvað stjórnmálaflokkur hv. þingmanns að hann ætlaði að beita sér fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þá þurfti ekki að klára fyrst samningaviðræður og kíkja í pakkann. Nei, fyrir 15 árum var Samfylkingin tilbúin að taka afstöðu til Evrópusambandsins og sú afstaða hefur ekki farið fram hjá neinum síðan þá. Flokkurinn og raunar forveri flokksins, Alþýðuflokkurinn, hafa barist fyrir aðild að Evrópusambandinu og talað fyrir slíkri aðild árum ef ekki áratugum saman.

Staða aðildarviðræðna nú er alveg ljós þó að ég ítreki skilning minn á þeim vilja hv. þingmanns til að viðhalda umræðu um mál flokks hans. Staða aðildarviðræðnanna er í fullu samræmi við afstöðuna sem birtist í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem gert er ráð fyrir nálgun í þremur þrepum. Í fyrsta lagi að gert verði hlé á aðildarviðræðunum. Það hlé hefur þegar verið gert og tilkynnt um það formlega í Brussel, fyrst af utanríkisráðherra og svo átti ég viðræður við forustumenn Evrópusambandsins skömmu síðar. Þar ríkti góður skilningur á ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar Íslands enda er hún í fullu samræmi við stefnu þeirra flokka sem hana mynda og jafnframt var skilningur á vilja ríkisstjórnarinnar til að viðhalda og byggja á góðu sambandi Íslands og Evrópusambandsins.

Í öðru lagi var gert ráð fyrir að gerð yrði úttekt á stöðu viðræðna og þróun mála innan ESB frá árinu 2009 þegar aðildarumsókn Íslands var lögð fram. Sú þróun hefur verið töluverð. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að gera úttektina og mun skila henni á næstunni. Þá gefst tækifæri til að ræða málið á grunni þeirra upplýsinga sem þar birtast, ræða málið á upplýstum grunni í þinginu og í samfélaginu almennt. Þetta tel ég afar mikilvægt enda hefur vantað mikið upp á umræðu um Evrópusambandið og eðli þess á Íslandi. Hér hefur umræðan verið látin snúast um það hvort hægt væri „að kíkja í pakkann“ eins og það er iðulega kallað, ekki um eðli Evrópusambandsins og hvað í því felist að sækja um aðild að ESB. Þeir talsmenn Evrópusambandsins sem hafa átt samskipti við íslensk stjórnvöld frá því að umsóknin var afhent hafa verið mjög skýrir um það að þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu þá sé það að sækja um að vera þátttakandi í því sem Evrópusambandið gengur út á og aðlaga sig að reglum þess, ekki fari fram samningaviðræður um samruna Íslands og ESB.

Í Bretlandi á sér stað mjög áhugaverð umræða um þróun Evrópusambandsins og þarlend stjórnvöld hafa tilkynnt að annaðhvort þurfi Evrópusambandið að breytast, eins og bresk stjórnvöld telja nauðsynlegt, eða Bretland muni ganga úr sambandinu. Í öllu falli er ljóst að Evrópusambandið mun taka miklum breytingum á næstu árum og því er mjög mikilvægt að Íslendingar skoði þær breytingar, fylgist með þeim og meti hversu vel þær henta Íslendingum.

Í þriðja lagi lá fyrir samkvæmt stjórnarsáttmála að ekki yrði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í mínum huga skiptir sú umræða sem hér mun fara fram í kjölfar skýrslu Þjóðhagsstofnunar í þinginu og í samfélaginu miklu máli upp á framhaldið. En báðir stjórnarflokkarnir eru andvígir aðild að Evrópusambandinu og Evrópusambandið sjálft hefur, eins og ég gat um, ítrekað gert Íslendingum grein fyrir því að umsóknarríki þurfi að vilja ganga í sambandið og skýr forusta stjórnvalda þurfi að leiða viðræðurnar með það að markmiði að koma landinu inn í sambandið enda þótt staðfesta þurfi aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðildarviðræður við Evrópusambandið snúast nefnilega um það að gerast aðili að Evrópusambandinu eins og það er. Að þessu leyti var vegferð síðustu ríkisstjórnar kannski víti til varnaðar því þar sáum við hversu erfitt það reyndist að vera í aðildarviðræðum þar sem ríkisstjórn var klofin í afstöðu sinni til málsins, hvað þá fyrir ríkisstjórn sem er andvíg aðild. Það er líka miklu heiðarlegra gagnvart viðsemjanda okkar ef niðurstaða liggur fyrir, þ.e. að menn vilji ganga í sambandið áður en sótt er um aðild og það er í rauninni það sem Evrópusambandið ætlast til. Það er ekkert til sem heitir könnunarviðræður, ekkert sem heitir „að kíkja í pakkann“. Ef menn sækja um aðild að Evrópusambandinu vilja menn ganga í Evrópusambandið á forsendum þess og þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í Evrópusambandið.