143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt að festa ríki í samskiptum okkar við önnur lönd. Evrópusambandið er hvað sem öllu líður einn af okkar mikilvægustu samstarfsaðilum en samskiptin við Evrópusambandið eru því miður í óvissu og þeirri óvissu þarf að eyða sem fyrst og koma samskiptum í viðunandi farveg.

Það er vissulega svo að mikil umræða hefur farið fram um það á undanförnum árum hvernig hagsmunum okkar er best fyrir komið innan Evrópusambandsins, utan Evrópusambandsins, og ef farið yrði í viðræður við Evrópusambandið um aðild hverjir væru okkar mikilvægustu hagsmunir.

Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann og þetta höfum við heyrt ítrekað í umræðunni. Árið 2009 lagði þáverandi ríkisstjórn fram tillögu um aðildarviðræður við Evrópusambandið og þá kom fram í kjölfarið tillaga frá hæstv. núverandi ráðherrum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni, og öllum öðrum þingmönnum flokka þeirra þar sem sagði að Alþingi ályktaði að fela utanríkismálanefnd að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu þar sem setja ætti saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum og vinna vegvísi um mögulega aðildarumsókn. Þetta gerði utanríkismálanefnd og þessi málsmeðferð af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þeim tíma er til vitnis um það að ekki liggur ljóst fyrir — meira að segja þeir flokkar töldu á þeim tímapunkti að það lægi ekki ljóst fyrir hvað fælist í aðild, það þyrfti að vinna undirbúningsvinnu. Gott og vel.

Þessir flokkar eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að halda áfram viðræðum en hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra lýstu því yfir fyrir kosningar í fjölmiðlum, til dæmis hæstv. fjármálaráðherra í fréttum við Ríkisútvarpið 23. mars 2013, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Og 22. maí 2013 segir hæstv. forsætisráðherra það sama í viðtali við Ríkisútvarpið þegar spurt er um hvort því megi treysta að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu, sagði hæstv. forsætisráðherra en vildi ekki tjá sig frekar um tímasetningu. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að reyna að ná sátt um málsmeðferðina (Forseti hringir.) í þessu máli og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu jafnvel þó menn megi (Forseti hringir.) að sjálfsögðu ræða tímasetningu hennar.