143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:08]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð höfum gjarnan talað fyrir því að langtímahugsun verði bætt og hugað verði að framtíð og lagt undir stöðugleika. Við Íslendingar erum alin upp við margvíslegt og breytilegt veður, eldgos, aflabrest versus gósentíð o.s.frv., og það veldur því kannski að í eðli okkar er dálítið ríkt að vera alltaf að hugsa bara um næsta haust eða að bregðast við því sem kemur upp. Það er stundum talað um að pissa í skóinn sinn eða að sveiflast eftir veðri og vindum og hvort tveggja eru í raun og veru afskaplega góðir og gildir og þjóðlegir íslenskir siðir. En þegar kemur að því að halda á málum samfélagsins og hugsa til framtíðar fyrir framtíðarkynslóðir er það aðferðafræði sem kann ekki góðri lukku að stýra. Það er gott að halda í góða þjóðlega siði og vana en að halda í ósiði þegar þeir eiga ekki við er ekki mjög heillavænlegt.

Evrópusambandið er ekki eins og íþróttalið þar sem maður gengur í liðið og er allt í einu kominn í þá treyju og getur ekki gert neitt annað. Evrópusambandið er samband og fyrst og fremst markaðs- og tollasamband frjálsra og óháðra ríkja þar sem menn hafa komið sér saman um að vinna saman að langtímamarkmiðum og nýta sér stærð og samlegð. Við eigum ekki að neita okkur um það án þess að vita hvernig okkur farnast.