143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég var í liði með hæstv. forsætisráðherra, sem þá var í minni hluta, og sjálfstæðismönnum þegar við vorum að berjast fyrir því að Icesave færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og þegar búið var að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði verið býsna furðulegt ef sitjandi ríkisstjórn hefði ekki hlýtt þjóðarvilja. Kallað er eftir því og meiri hluti Íslendinga vill fá að halda áfram þessum samningaviðræðum. Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt fyrir ríkisstjórnina. En ég vil hvetja þá stjórnarliða sem eiga erfitt með þetta að taka sér VG til fyrirmyndar þegar var verið að vinna í aðildarviðræðunum síðast (Gripið fram í.) út af því að afstaða VG fannst mér aðdáunarverð því að þar var mikill meiri hluti þingmanna á móti aðild. En afstaðan var sú og vinnuferlið — ég var vitni að því vinnuferli — var þannig að reynt var að gera allt sem mögulegt var til að ná sem bestum samningi fyrir þjóðina. (Gripið fram í.)

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við temjum okkur það að gera allt sem við mögulega getum til að tryggja, burt séð frá því hvar í flokki við stöndum, að við framfylgjum þjóðarvilja eftir bestu mögulegum leiðum. Kallað er eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem barðist mjög fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave, hvort hæstv. forsætisráðherra þætti ekki eðlilegt þegar við erum búin að fá þessa skýrslu að gefa okkur skýr svör um það hvort við fáum þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki, annaðhvort í kringum sveitarstjórnarkosningar eða forsetakosningar.