143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur skýrt ýmislegt, m.a. að stjórnarflokkarnir halda áfram þeim leik að koma sér undan þeim fyrirheitum sem gefin voru fyrir kosningar þess eðlis að það væri hægt að kjósa þessa flokka og halda líka áfram með aðildarumsókn ef þjóðin kysi það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú finna menn þeirri leið ýmislegt til foráttu og telja að það þurfi forustu um málið o.s.frv. Það var ekki það sem þessir flokkar sögðu fyrir kosningar og það er ekki mikill bragur að því hjá þessum flokkum að leiðast út í það, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gerði áðan, að gera hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, að ómerkingi því að hann sagði skýrt fyrir kosningar að hann teldi eðlilegt að kosningar færu fram á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra gerði mér þann greiða áðan að gera að umtalsefni hvernig Samfylkingin mótaði afstöðu sína til Evrópusambandsins. Hann fór þar rangt með í öllum atriðum. Samfylkingin mótaði ekki afstöðu sína um leið og hún var stofnuð. Hún mótaði afstöðu sína árið 2002 í almennri atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna og spurningin sem beint var til flokksmanna var hvort menn vildu láta skilgreina samningsmarkmiðin, sækja um aðild og láta leggja samning fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

81% lýsti sig fylgjandi þeirri stefnu. Þúsundir samfylkingarmanna tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Ég held nefnilega að það sé mjög hollt fyrir hæstv. forsætisráðherra að horfa til þessa fordæmis. Það getur veitt honum leiðsögn út úr þeirri úlfakreppu sem hann hefur sjálfur komið sér í. Sú leið að leita til þjóðarinnar eftir skýru umboði til að halda áfram getur leyst hann út úr því öngstræti sem hann er kominn í eftir að hafa gefið þjóðinni ádrátt um að hægt sé að halda áfram með þessar viðræður en þora ekki alveg sjálfur að halda áfram með þær. Þjóðin verður að fá að ráða þegar upp er staðið. Ríkisstjórn sem treystir sér ekki til að framfylgja því sem þjóðin ákveður í þjóðaratkvæðagreiðslu getur ekki setið með siðferðilegu umboði.