143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna. Það voru nokkrar sérstæðar athugasemdir um afstöðu stjórnarflokkanna til þessa máls, m.a. að það væri á einhvern hátt óeðlilegt að vilja vinna undirbúningsvinnu ef farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið þótt menn teldu sig vita hvað fælist í aðild. Að sjálfsögðu hefði þurft undirbúningsvinnu ef út í þetta hefði verið farið og að sjálfsögðu var eðlilegt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu þegar ríkisstjórnin vildi setja þetta mál á dagskrá, eins og ég skrifaði um og vitnað var í og er í fullu samræmi við núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar, að þetta mál fari ekki áfram, það verði ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu nema til komi þjóðaratkvæðagreiðsla.

Menn greinir mjög á um hvað í öllu þessu felist, hvað felist í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hvers eðlis þetta allt saman sé. Bara við gætum fengið einhver skýr svör frá öruggri heimild. Og það vill svo til að Evrópusambandið gefur út sérstakan leiðarvísi fyrir umsóknarríkin þar sem stendur (Gripið fram í.) í beinni þýðingu: Hugtakið „samningaviðræður“ getur verið villandi. Aðildarviðræður snúast um upptöku, innleiðingu og framkvæmd umsóknarríkisins á reglum ESB, einum 100 þúsund blaðsíðum af þeim, og þessar reglur, einnig þekktar sem „acquis“ sem á frönsku þýðir það sem hefur verið ákveðið, eru ekki umsemjanlegar.

Fyrir umsóknarríkið snýst þetta í raun um hvenær eigi að taka upp og innleiða reglur og vinnulag ESB. Fyrir ESB er mikilvægt að fá tryggingar fyrir dagsetningum og hversu vel umsóknarríkið muni innleiða reglurnar. Þessar 100 þúsund blaðsíður af reglum ESB og vinnulagi sem ekki er umsemjanlegt.