143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

styrkir til húsafriðunar.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Þær úthlutanir sem hv. þingmaður vísar til voru í samræmi við verklagið sem gilti um það fjármagn sem var til ráðstöfunar og hafði að mestu leyti orðið til á síðasta kjörtímabili og miðar ekki eingöngu að því að styrkja húsafriðunar- eða húsaverndarmál heldur fyrst og fremst atvinnusköpun með áherslu á umhverfisvænar framkvæmdir og verndun húsa. Þetta er því í samræmi við það sem þar er lagt upp með þó að ég telji reyndar að það mætti vel bæta fjármagni í húsavernd almennt. Það var skorið töluvert niður, ég held um 82% á milli ára í framlögum til húsafriðunarnefndar sem var liður í þeim óhjákvæmilegu sparnaðaraðgerðum sem ráðist var í við gerð fjárlaga til að skila þeim hallalausum.

Hvað varðar þær úthlutanir sem hv. þingmaður spyr um þá var lagt mat á þær af þar til bærum sérfræðingum og Minjastofnun annast eftirfylgni með öllum þessum styrkjum.