143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

styrkir til húsafriðunar.

[15:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir svarið. Mér finnst samt mörgum spurningum ósvarað og ég býst við að ég leggi fram skriflega fyrirspurn þannig að ég geti fengið ítarleg svör. Það er þannig, ef ég skil rétt, að þetta er úr þessum 190 millj. kr. potti sem forsætisráðuneytið hefur nú til umsjónar og ég velti fyrir mér hvernig þetta skarast við húsafriðunarsjóð, sem hefur að mig minnir 90 millj. kr. til umráða eða rétt um 100 millj. kr., og hvernig er þá með samstarf við sjóðinn og líka þá aðila sem sinna þessum málum fyrir hönd sveitarfélaganna. Mér finnst að verið sé að auka flækjustigið, frekar hefði átt að láta þessa peninga til húsafriðunarsjóðs.

En ég mun fara fram á svör og leggja fram skriflega fyrirspurn því að mér finnst þetta vera mjög merkilegt mál.