143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

ferðaþjónusta fatlaðra.

[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við vitum að ferðaþjónusta fatlaðra skiptir sköpum fyrir viðkomandi einstakling og því er mjög brýnt að þessi mál séu í lagi. Til að fatlaðir geti sinnt tómstundum, félagsstarfi og öllum hversdagslegum athöfnum sem við sem teljumst ófötluð teljum sjálfsagðan hlut og til að þeir geti haft samskipti við vini og ættingja þarf ferðaþjónusta fatlaðra að vera í lagi.

Komið hafa upp dæmi, sem ég veit um, um að þetta sé ekki í lagi. Þá eru viðkomandi einstaklingar í raun fastir í stofufangelsi og það er óásættanlegt. Mér finnst að ef einhver slík dæmi séu til staðar sem ráðuneytið hefur haft til umfjöllunar verði að bregðast við því áður en endanleg endurskoðun á lögum kemur til, því að það virðist vera að ekki séu þvingunarúrræði í þeim lögum sem eru í gildi í dag.

Ég treysti ráðherra til að vinna vel að þessum málum.