143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

tollalög.

137. mál
[15:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það verður ekki annað séð en að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu til bóta. Ég tel hins vegar afskaplega mikilvægt að við göngum lengra og gerum það sem við getum af því að við getum algjörlega gert það sjálf. Við erum ekki bundin í tollabandalag, við erum ekki föst í Evrópusambandinu og getum þess vegna stigið þau skref sem við viljum til að auka viðskiptafrelsið.

Þetta mál allt saman byggir á því að hér var gert samkomulag við Alþjóðaviðskiptastofnunina á sínum tíma. Því miður hafa ekki verið stigin fleiri skref, m.a. vegna þess að „merkantínísk“ tollabandalög eins og Evrópusambandið hafa ekki ýtt undir það, heldur þvert á móti alltaf staðið í vegi fyrir því. Við höfum hins vegar tækifæri til að vera til mikillar fyrirmyndar þegar kemur að viðskiptafrelsi og eigum að nýta þau tækifæri þannig að ég segi já við þessu.